Einar K. Guðfinnsson segir að einyrkjar, minni byggðalög og nýliðar í sjávarútvegi fari verst út úr svokallaðri fyrningarleið í sjávarútvegi. Staðfestur ásetningur ríkisstjórnarinnar sé þegar farinn að valda skaða í greininnni. Undir þetta tók Guðmundur Steingrímsson nýr þingmaður Framsóknarflokksins á Vesturlandi í umræðum á Alþingi í dag, Hann sagði fólkið sem hefði keypt sig inn í þessa grein hafa gert samkvæmt þeim leikreglum sem hefðu verið í gildi. Með því að fara þessa leið væri verið að refsa þeim sem síst skyldi og innkalla störf.
Sanngjörn og hófsöm leiðrétting á óréttlátu kerfi leiðir ekki hrun yfir sjávarútveginn, segir Ólína Þorvarðardóttir sem er líka nýr þingmaður Vesturlands en fyrir Samfylkinguna. Hún sagði gamla grátkórinn aftur tekinn að hljóma í háværu harmakveini. Þessi málflutningur væri í ætt við sérhagsmunagæslu undir yfirskini stjórnmála.
Einar K Guðfinnsson sagði að það lægi fyrir að einungis Samfylkingin væru áhugasöm um fyrningarleiðina. Hún væri búin að tala sig inn í vitleysuna og kæmist ekki út úr henna. Umræðan hefði það leitt það í ljós að aðrir flokkar ýmist gyldu varhug við umræðunni eða væru áhugalausir.
Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra sagði að það yrði að endurskoða kerfið. Það væri engin sátt um það og þeir þingmenn sem vildu halda öllu óbreyttu væru veruleikafirrtir. Hann sagði að það ætti að sameinast um að fara í endurskoðun kerfisins í samráði við alla hagsmunaaðila