Viðhorf til Íslands sem áfangastaðar er óbreytt frá því 2007 í Bretlandi og Þýskalandi. Helstu ástæður þess að heimsækja ísland eru náttúra og menning. Þeir sem sótt hafa landið heim og eins þeir sem hafa hug á því eru jákvæðari til landsins en aðrir.
Þetta er meðal þess sem lesa má út úr viðhorfskönnun sem ParX Viðskiptaráðgjöf IBM gerði fyrir Útflutningsráðs Íslands og Ferðamálastofu og kynnt var á málþingi fyrr í dag sem bar yfirskriftina Að tala fyrir hönd Íslands.
Könnun var gerð í Bretlandi, Þýskalandi og Danmörku, en löndin þrjú eru meðal stærstu viðskiptamarkaða Íslands. Gagna var aflað símleiðis í febrúar sl. og voru þátttakendur þúsund á hverjum markaði.
Ísland er sem fyrr helst tengt náttúru, þó staða þjóðarbúsins sé einnig ofarlega í huga almennings í Danmörku, Bretlandi og Þýskalandi. Þetta kemur fram í nýrri viðhorfskönnun sem gerð var í febrúar sl. og kynnt á málþingi fyrr í dag. Flestir aðspurðra telja að viðhorf sitt til Íslands sé óbreytt frá því fyrir 12 mánuðum eða 66-84%., en þó nefna 7-21% að viðhorf þeirra hafi versnað, hlutfallslega flestir í Bretlandi, en fæstir í Þýskalandi. Helsta ástæða þess að viðhorf hefur breyst er efnahagsástandið. Viðhorf til Íslendinga er jákvætt í öllum löndum.
Viðhorfsrannsókn um Ísland í Bretlandi, Danmörku og Þýskalandi