Líftæknifyrirtækið ORF-Líftækni hefur sótt um leyfi til Umhverfisstofnunar að hefja útiræktun á erfðabreyttu byggi hér á landi. Ekki er full samstaða í Ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur um hvort mæla eigi með því að farið verði út í verkefnið.
ORF-líftækni sótti um leyfi til ræktunar erfðabreytts byggs á akri, til að gera samanburð á yrkjum. Verkefnið miðar einnig að úrvinnslu og hreinsun og fullvinnslu á próteinum til annarra nota en fóðurs eða fæðis.
Deilt hefur verið um notkun á erfðabreyttum plöntum í landbúnaði og líftækni um árabil víða um lönd. Ekki hafa verið færðar óyggjandi sönnur á að erfðabreyttar lífverur séu skaðlegar fyrir heilsu manna, en áhyggjur manna snúa m.a. að því að áhrifin komi fram á löngum tíma og því séu menn að taka áhættu með því að nota þessa tækni. Einnig eru áhyggur af því hvaða áhrif erfðabættar plöntur, sem eru oftast mjög öflugar og þola meira en aðrar plöntur, hafa í náttúrunni.
Snorri Baldursson, starfandi formaður Ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur, segir í umsögn sinni að löggjafinn og meirihluti Raðgjafarnefndar um erfðabreyttar lífverur sé þeirrar skoðunar að ekki beri að hafna notkun þessarar tækni heldur skuli meta hvert tilvik fyrir sig út frá öryggissjónarmiðum.
Gunnar Á. Gunnarsson, sem einnig á sæti í nefndinni, telur hins vegar að ekki hafi verið sýnt fram á ásættanlegt öryggi með því að sleppa erfðabreyttu byggi út í náttúruna með þeim hætti sem fyrirhugað er að nota í verkefninu.
Náttúrufræðistofnun hefur einnig veitt umsögn um verkefnið. Stofnunin telur að skoða þurfi tvö meginatriði vegna ræktunar á erfðabreyttu byggi og hugsanlegrar dreifingu erfðabreyttra lífvera út í íslenska náttúru. Í fyrsta lagi þurfi að skoða hvort hætta sé á því að próteinið sem á að framleiða sé skaðlegt fyrir aðrar lífverur, berist það í þær og í öðru lagi hvort gen sem hið erfðabreytta bygg er hýsill fyrir berist í aðrar lífverur með víxlfrjóvgun eða eftir öðrum leiðum. Bent er á að ORF-líftækni ætli að gera ýmsar ráðstafanir til að koma í veg fyrir þetta svo sem með varnarbeltum og böndum yfir tilraunareitina svo að fuglar komist síður í þá. Ljóst sé þó að útilokað verði að koma alfarið í veg fyrir að fuglar, hagamýs eða smádýr í jarðvegi komist í bygg sem fellur af öxum. Náttúrufræðistofnun leggst þó ekki gegn umsókninni.
Umhverfisstofnun hefur ákveðið að boða til opins fundar í Frægarði, fundarsal Landgræðslu Ríkisins í Gunnarsholti, þriðjudaginn 26. maí n.k. og hefst fundurinn kl. 13:30. Á fundinum mun fulltrúi stofnunarinnar fara yfir helstu mál er varða forsendur slíkra leyfisveitinga, en á fundinum mun fulltrúi ORF Líftækni kynna starfsemi fyrirtækisins auk þess sem fulltrúar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Ráðgjafarnefndar um erfðabreyttar lífverur munu kynna framkomnar umsagnir um fyrirhuguð áform fyrirtækisins um útiræktun. Áhugasamir aðilar geta einnig komið skriflegum athugasemdum við umsóknina á framfæri við stofnunina. Umsagnafrestur er til 28. maí.
Sjá nánar á www.ust.is