Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sté í pontu í gær til að ræða um fundarstjórn forseta. Sagði hann það vekja furðu sína að ekkert mál væri á dagskrá þingsins sem varðaði stöðu heimila og fyrirtækja. Þess í stað væri m.a. verið að ræða meðhöndlun úrgangs, erfðabreyttar lífverur og kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja.
Allt væru þetta ágætis mál en brýnast væri að ræða og leysa brýnan fjárhagsvanda heimila og fyrirtækja í landinu. „Vorum við ekki komin til að ræða um eitthvað allt annað?“ spurði Sigmundur Davíð. Undir þetta tóku Birkir Jón Jónsson og Eygló Harðardóttir, þingmenn Framsóknarflokksins.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, svaraði því til að forsætisráðherra myndi ræða stöðu efnahagsmála eftir helgina, en þingið er nú komið í langt helgarfrí.