Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta og friðarverðlaunahafi Nóbels, mun líklega heimsækja Alþingi meðan á dvöl hans hér á landi stendur.
„Það kom fyrirspurn frá þeim sem skipuleggja heimsókn Dalai Lama hingað hvort það væri hugsanlegt að hann gæti hitt utanríkismálanefnd,“ segir Árni Þór Sigurðsson alþingismaður sem kynnti málið fyrir nefndinni í gær.
„Ég get ekki sagt að það verði formlegur fundur en hins vegar er líklegt að hann muni heimsækja þingið eða skoða og þá hugsanlega hitta einhverja fulltrúa úr utanríkismálanefnd eða aðra þingmenn til skrafs og ráðagerða,“ segir Árni.
Hann segir að það geti vel verið að Kínverjar mótmæli þessu.
„En Kínverjar stjórna því auðvitað ekki hverja íslenskir alþingismenn hitta og hverja ekki. Við lítum svo á að hann sé fyrst og fremst trúarleiðtogi og nóbelsverðlaunahafi.“