Finnst „fráleitt“ að embættismenn fari í frí

Tryggvi Þór Herbertsson.
Tryggvi Þór Herbertsson. mbl.is/Kristinn

„Ég hef verulegar áhyggjur af því að embættismannakerfið íslenska muni fara í frí í sumar, eins og venja er. Á þeim tímum sem núna eru, þegar íslenskt efnahagslíf hefur aldrei staðið frammi fyrir meiri erfiðleikum, er nánast óréttlætanlegt að ráðuneyti og stofnanir verði hálflamaðar vegna fría. Nóg er að stjórnmálin hafi verið í lamasessi síðustu mánuði vegna kosninga,“ segir Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hann segist hafa áhyggjur af því að venjubundin sumarfrí í ráðuneytum og stofnunum muni leiða til mikils hægagangs í aðgerðum fyrir heimili og fyrirtæki.

„Staða mála er þannig, að við erum með stærstu verkefni sem nokkur stjórnvöld hafa staðið frammi fyrir á Íslandi í sögunni. Það er nógu slæmt að embættismannakerfið verði sett af fullum krafti í vinnu vegna hugsanlegra aðildarviðræðna við ESB, og síðan einnig í vinnu við að umturna sjávarútveginum. En það er samt ekkert eins og slæmt og að ráðuneytin verði næstum óstarfhæf yfir sumarmánuðina, eins og allir vita að er raunin með tímabilið frá miðjum júní fram í miðjan ágúst. Það vill svo til að núna, árið 2009, hittir þannig á að það er ekki tími fyrir embættismenn að fara í frí. Það þarf einfaldlega að taka tillit til þess.“

Samkvæmt þingsköpum, sem breytt var árið 2007, er ráð fyrir gert að þingfundir standi fram í byrjun júní en síðan fari Alþingi í sumarfrí, og hefji störf aftur í byrjun september.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segist allt eins búast við því að störf þingsins geti dregist fram eftir sumri. „Við munum einfaldlega vinna eins og þarf.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert