Verkalýðsfélag Akraness hafnar algerlega tillögu Samtaka atvinnulífsins um að þeir sem lægstu launin hafa fái 7.000 króna hækkun á töxtum, en aðrir taxtar hækki ekki. Félagið krefst þess að þær launahækkanir sem um var samið 17. febrúar 2008 taki gildi 1. júlí nk.
Núgildandi samningar gera ráð fyrir að taxtalaun hækki um 13.500 kr. og laun þeirra sem ekki taka laun eftir taxtakerfi hækki um 3,5%. Þessi hækkun átti að koma til framkvæmda 1. febrúar sl., en hækkuninni var frestað til 1. júlí. Viðræður hófust í gær um framhald kjarasamninga. Fulltrúar ríkisvaldsins taka þátt í viðræðunum.