Skuldbinding Borgarbyggðar vegna byggingar leigusamnings við Menntaborg sem á og rekur Menntaskóla Borgarfjarðar eru 1700 milljónir króna. Fulltrúi í bæjarstjórn Borgarbyggðar gagnrýnir hvernig haldið hefur verið á málum og biður um leið íbúa Borgarbyggðar afsökunar á því að hann skuli ekki hafa gert athugsemd þegar samningurinn var samþykktur.
Í hádegisfréttum RÚV kom fram að kostnaður við byggingu menntaskólans hafi numið 800-900 milljónum króna. Tekið hafi verið erlent lán vegna framkvæmda og það hafi hækkað mikið. Þegar búið sé að bæta lántökukostnaði við standi lánið í um 1,7 milljarði.
Sveinbjörn Eyjólfsson, oddviti Framsóknarflokks í Borgarbyggð, segir í bókun á bæjarráðsfundi að þetta mál sé eitt versta dæmið í fjármálastjórn Borgarbyggðar á árinu 2008. Borgarbyggð samþykkti snemma á árinu 2008 leigusamning við Menntaborg. Röksemd fyrir þessum samningi var að með honum gæti Menntaborg ehf náð betri samningum við lánadrottna um fjármögnun hússins.
Sveinbjörn gagnrýnir að með samningnum skuli ekki hafa verið lögð fram nein gögn þar sem reynt er að meta þær skuldbindingar sem sveitarfélagið tók á sig með samningnum. Nokkuð ljóst sé að með því hafi byggðaráð brotið ákvæði 65. gr. sveitarstjórnarlaga og e.t.v líka 62. grein. KPMG gerir athugasemdir við þessa samþykkt í endurskoðunarskýrslu sinni fyrir árið 2008
"Það er einnig vítavert að ég sem byggðaráðsfulltrúi, hafi ekki gert
athugasemd við þessa málsmeðferð. Ég vil nota þetta tækifæri til að
biðja íbúa Borgarbyggðar afsökunar á því," segir í bókun Sveinbjörns.