Sautján sjóðfélagar í Lífeyrissjóði Vestfirðinga hafa farið fram á nánari upplýsingar frá stjórn sjóðsins vegna tap á rekstri sjóðsins á árinu 2008, en þá rýrnuðu eignir sjóðsins um tæp 30% og ávöxtun hans var neikvæð um 29%.
Í bréfinu er þess óskað að stjórnin skýri hvað hafi ráðið ákvörðun um fjárfestingu hverju sinni. „Jafnframt förum við fram á að stjórnin upplýsi hvaða forsendur lágu til grundvallar þeim breytingum sem stjórnin samþykkti á fjárfestingastefnu sjóðsins á fundi sínum 27. nóvember 2007 og fól m.a. í sér þá stefnu að hlutfall hlutabréfa í eignum sjóðsins verði aukið í allt að 50% á næstu árum eins og segir í ársreikningi fyrir 2007,“ segir í bréfinu.
Þá óska
bréfritarar útskýringar stjórnarinnar hvernig markmið um að 50% eigna
sjóðsins verði í hlutabréfum samrýmist eðlislægu hlutverki sjóðsins um
að varðveita og ávaxta fjármuni sjóðfélaga af varkárni og með lágmarks
áhættu.
Spurt er hvort og þá hverjir hafi verið faglegir
ráðgjafar lífeyrissjóðsins við mótun og framkvæmd fjárfestingarstefnu
hans. Ef engir hafi verið, hverjir réðu og mótuðu þá stefnuna. Einnig
er spurt hvort starfsmenn og stjórnarmenn hafi þegið boðsferðir eða
gjafir frá fyrirtækjum sem sjóðurinn hefur fjarfest í. Sé það raunin
óskast upplýst hver eða hverjir voru gestgjafar, hvert var farið og
hverjir tóku þátt í boðsferðum fyrir hönd sjóðsins.
Í svari
stjórnar Lífeyrissjóðs Vestfirðinga er félögunum bent á ársfund
sjóðsins sem haldinn verður í dag, 21. maí. Hann sé opinn öllum
sjóðfélögum og lífeyrisþegum. Þá fari endurskoðandi sjóðsins yfir allar
upplýsingar um stöðu fjárfestinga sjóðsins í kjölfar þeirra
fjármálahamfara sem gengið hafi yfir veröldina og íslenskt efnahagslíf
á undanförnum mánuðum, segir í bréfi til sjóðfélaganna. Allar þær
upplýsingar sem sjóðfélagarnir hafi óskað eftir, verði lagðar fram á
ársfundinum og öllum spurningum þar að lútandi svarað.