Lífeyrissjóðir láni borginni

Hanna Birna Kristjánsdóttir og Óskar Bergsson ræða við fréttamenn í …
Hanna Birna Kristjánsdóttir og Óskar Bergsson ræða við fréttamenn í Ráðhúsinu. Þau vinna nú að því að útvega Reykjavíkurborg lánsfé til framkvæmda á þessu ári. mbl.is/Frikki

Yfirvöld hjá Reykjavíkurborg eiga nú í samningaviðræðum við lífeyrissjóði um að þeir láni borginni 5 til 6 milljarða króna til framkvæmda á þessu ári, samkvæmt heimildum mbl.is. Vonast er til þess að samningar um lán muni nást í næstu viku og verði kynntir á fundi borgarráðs eftir viku.

Reykjavíkurborg á enn eftir að fjármagna framkvæmdir upp á tæplega sjö milljarða króna sem áætlaðar eru á þessu ári. Borgin hefur þegar fengið einn milljarð að láni frá Lánasjóði íslenskra sveitarfélaga en lán frá lífeyrissjóðunum myndi brúa bilið fyrir það sem upp á vantar.

Erfitt hefur verið að fá lán hjá lánastofnunum, hér á landi og erlendis, undanfarin misseri og því ákváðu borgaryfirvöld að snúa sér til lífeyrissjóðanna með von um að þeir gætu fjármagnað framkvæmdir borgarinnar.

Framkvæmdir hafa ekki enn verið boðnar út en venjulega er það gert á vormánuðum. Útboðin eru þó háð því að fjármögnun til framkvæmda sé tryggð.

Meðal framkvæmda sem háðar eru auknu lánsfé eru áframhaldandi bygging Norðlingaskóla og Sæmundarskóla. Kjartan Magnússon, formaður menntaráðs borgarinnar, sagðist vonast til þess að samningar um lán lægju fyrir á næstunni. „Áframhaldandi framkvæmdir eru háðar lánsfé og ég er vongóður um að þau mál skýrist innan tíðar,“ sagði Kjartan í samtali við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert