Hæstiréttur hefur dæmd karlmann á fertugsaldri í 5 mánaða skilorðbundið fangelsi fyrir líkamsárás og brot gegn valdstjórninni. Var ákveðið að skilorsbinda refsinguna vegna þess hve rannsókn málsins dróst lengi en maðurinn framdi brotið í ágúst 2006 þegar þjóðhátíð stóð yfir í Eyjum. Ákæra var þingfest í maí á síðasta ári.
Maðurinn var ákærður fyrir að slá dyravörð á veitingastað í Vestmannaeyjum í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut skurðsár á efri vör og missti framtönn í efri góm. Þegar lögregla var kölluð til veittist maðurinn með ofbeldi og hótunum um ofbeldi að lögreglumanni, sparkaði í fætur hans og hótaði honum lífláti.
Maðurinn neitaði því að hafa ráðist á dyravörðinn en sagðist hafa lent í útistöðum við lögreglu þar sem hún hefði farið mannavillt. Hæstiréttur taldi sök mannsins hins vegar sannaða með framburði vitna. Segir dómurinn að árás mannsins á dyravörðinn hafi verið algerlega tilefnislaus og ósvífin og jafnframt að hótun hans gegn lögreglumanninum hafi verið gróf og til þess fallin að vekja hjá honum ótta um líf hans og heilsu.
Auk fangelsisdómsins var maðurinn dæmdur til að greiða dyraverðinum 343 þúsund krónur í bætur og málskostnað, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals um 550 þúsund krónur.