Óttast klofning í VG

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, á Alþingi ásamt Kristjáni L. …
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, á Alþingi ásamt Kristjáni L. Möller, samgönguráðherra. mbl.is/Ómar

Stjórnarmaður í félagi Vinstri grænna í Ölfusi og Hveragerði, segir á bloggsíðu sinni að það geti leitt til alvarlegs klofnings innan raða VG ef einstakir þingmenn flokksins sitja hjá í atkvæðagreiðslu um Evrópusambandstillögu á Alþingi. Segist Rafn sjálfur líta á slíkt sem svik við stefnu flokksins.

Rafn Gíslason vísar til ályktunar, sem samþykkt var á landsfundi VG í vetur þar sem  segir m.a., að Vinstrihreyfingin-grænt framboð telji nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.  Sjálfsagt sé og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins og landsfundur VG leggi áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

„Nú í samningaviðræðum Vinstri Grænna og Samfylkingar bregður hinsvegar svo við að ákveðið er að leggja aðildar umsókn fyrir alþingi til ákvörðunar með fulltingi VG. Einnig var gefin út yfirlýsing af hálfu formanns Vinstri Grænna að flokkurinn færi óbundin í þá atkvæðagreiðslu og að þingmenn flokksins myndu greiða atkvæði eftir sannfæringu sinni. Þetta þykir mér heldur loðin svör svo ekki sé meira sagt. Hvað var verið að samþykkja á landsfundinum í mars varðandi afstöðu flokksins til ESB?  Ef ekki á að taka afgerandi afstöðu í þingflokknum með hliðsjón af stefnu hans og samþykktar landsfundarins í þessu máli þá þykir mér fokið í flest skjól og verið að hafa ályktun landsfundarins að engu," segir Rafn.

Hann bætir við að nú sé að koma í ljós að einhverjir þingmenn VG  telji sig ekki bundna af þessari ályktun og ekki sé annað að heyra í fréttum en að formaðurinn sé því samþykkur.

„Ég sem félagi og stjórnarmaður í félagi Vinstri grænna í Ölfusi og Hveragerði krefst þess að flokksforystan  og þingmenn gangi hreint til verks og skýri afstöðu sína fyrir okkur félagsmönnum sem höfum starfað fyrir félagið í þeirri góðu trú að flokkurinn stæði við gefnar yfirlýsingar. Ég mun líta svo á að ef einhverjir þingmenn VG ætla sér að sitja hjá við væntanlega atkvæðagreiðslu og ef að það verður til þess að af aðildarumsókn verður samþykkt í þinginu þá mun ég líta svo á að um svik við stefnu flokksins sé að ræða og þá kjósendur sem kusu VG á forsendum fyrri yfirlýsinga hans í garð ESB.

Ég hef þá trú að margur ESB andstæðingurinn muni eiga erfitt með að kyngja slíkri niðurstöðu og tel reyndar að veruleg hætta sé á að það geti leitt til alvarlegs klofnings innan raða VG ef sú yrði raunin. Ég ætla því að vona að þingmenn Vinstri Grænna hafi það í huga að þegar að atkvæðagreiðslu kemur," segir Rafn.

Bloggsíða Rafns

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka