14 sitja fundi þingflokks framsóknarmanna

Einar Skúlason.
Einar Skúlason.

Einar Skúlason, skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins, segir að ljóst sé að einhverjar breytingar hafi þurft að gera á skipan herbergja þingflokka eftir síðustu alþingiskosningar en Framsóknarflokkurinn hafi bætt við sig tveimur þingmönnum og Vinstri grænir fimm. Hann segir að þingflokksherbergi VG sé hins vegar of lítið fyrir framsóknarmenn þar sem að jafnaði sitji fjórtán fundi þingflokksins.
 
„Þeir sem eiga að jafnaði sæti á þingflokksfundum Framsóknar eru þingmenn, formaður LFK og formaður SUF, framkvæmdastjóri flokksins, skrifstofustjóri þingflokksins og aðstoðarmaður formanns. Þannig að 14 manns sitja fundi að jafnaði, auk gesta sem sitja oft fundi þegar leitað er álits sérfræðinga á málum sem eru í meðferð Alþingis. Þingflokksherbergi VG yrði því einnig of lítið fyrir þingflokksfundi framsóknarmanna, líkt og núverandi þingflokksherbergi VG er of lítið fyrir þá.
 
Það hefur hins vegar lítið verið fjallað um þá staðreynd að nóg er plássið í Alþingishúsinu. Þar er stórt fundaherbergi, almennt kallað ríkisstjórnarherbergið, sem er nánast ekkert notað og verður líklega ekkert notað á kjörtímabilinu þar eð ríkisstjórnin stefnir að því að funda frekar á landsbyggðinni fundi hún á annað borð ekki á sínum hefðbundna fundarstað í Stjórnarráðinu eða í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Frá upphafi hefur það verið tillaga framsóknarmanna, sem þingmenn Vg hafa tekið undir, að þingflokkur Vg myndi fá þetta herbergi og að núverandi þingflokksherbergi Vg verði nýtt sem fundaherbergi ríkisstjórnar, ef svo ber undir að hún eða aðrir fyrirmenn vilji funda í Alþingishúsinu.
 
Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við Árna Þór Sigurðsson, þingmann Vg, þar sem hann tekur réttilega undir þá staðreynd að þetta mál snýst um vinnuaðstöðu þingmanna og að það ásælist enginn þingflokksherbergi framsóknarmanna. Það er því óskiljanlegt þegar Árni Þór klykkir út með því, í lok viðtalsins, að það sé fáránlegt hversu mikið púður framsóknarmenn setji í þetta mál á meðan þeir gagnrýna aðgerðaleysi í þingsölum.
 
Árna Þór setur niður með því að setja þetta herbergismál í pólitískt samhengi. Þetta hefur ekkert með pólitík að gera, einungis vinnuaðstöðu.
 
Það kemur líka úr hörðustu átt að reyna að setja málið í pólitískt samhengi þar sem Vinstri græn hafa valdið töluverðu fjaðrafoki í þinginu að undanförnu þar sem þau neituðu að flytja í nýja skrifstofuaðstöðu fyrir alþingismenn í húsi við Aðalstræti. Og hvers vegna vildu þau ekki flytja? Jú, viðkomandi hús í Aðalstræti er þekkt sem Moggahöllin og af hugmyndafræðilegum og sögulegum ástæðum þá gátu þingmenn Vg ekki hugsað sér að hafa skrifstofur í húsinu," skrifar Einar Skúlason á vef Pressunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka