Þeir sem borguðu fyrir útboðslóðir í Úlfarsárdal með skuldabréfi frá Reykjavíkurborg en hafa ekki byrjað að byggja á þeim mega skila þeim. Þeir fá þá ekki endurgreitt það sem greitt er.
Aðeins einn af þeim sex lóðarhöfum í Úlfarsárdal, sem borguðu útboðslóðir með skuldabréfi frá borginni en hafa ekki byrjað að byggja, hefur óskað eftir því að skila lóðinni. Framkvæmda- og eignasvið lagði fyrir borgarráð að fá að taka við lóðum þeirra og fella skuldabréfin niður óskuðu þeir þess og fékk það samþykkt fyrir viku. Það sé auðveldari og hagkvæmari leið fyrir báða aðila en ef uppboðs er óskað, segir Ágúst Jónsson, skrifstofustjóri framkvæmda- og eignasviðs.
Reykjavíkurborg hefur hingað til almennt synjað þeim sem keyptu lóðir í útboði um að skila þeim.
Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður segir lóðarhöfunum ítrekað mismunað. „Ég tel það ekki málefnalegar ástæður að það skipti máli hvort lóðarhafar skulda Reykjavíkurborg eða banka fyrir lóðirnar. Lóðarhafarnir eru í sambærilegri stöðu hverjum svo sem þeir kunna að skulda fyrir lóðirnar,“ segir hún en skjólstæðingar hennar keyptu lóðir í Úlfarsárdal og greiddu fyrir úr eigin vasa eða með aðstoð banka. Þeir hafa fengið synjun um að skila lóðunum og hefur Sigríður Rut kært synjanir sumra til samgönguráðuneytisins og undirbýr kæru annarra.
Ágúst segir að þessi lóðarhafi sem fái að skila skuldi tvær greiðslur af skuldabréfinu en þrír til viðbótar skuldi eina en tveir séu með sín í skilum. Hann segir að það sem greitt hafi verið inn á skuldabréfið tapist við það að borgin taki skuldabréfið til baka. Hann vill ekki gefa upp hve háa upphæð sá sem hafi ákveðið að skila hafi greitt til borgarinnar en spurður hvort hún dekki vaxtakostnað af skuldabréfinu segir Ágúst það ekki hafa verið reiknað út. „Við munum ganga frá því núna að fenginni þessari heimild að hann afsali sér byggingarréttinum til okkar aftur og skuldabréfið sé þar með úr sögunni. Við vitum ekki hvort hinir fimm notfæri sér þessa heimild – þeir munu örugglega ekki allir gera það.“ Heimildin snúist í raun um innheimtuaðferð. „Við hefðum getað sleppt því að leita til borgarráðs og sett svona mál í venjulega nauðungarsölumeðferð vegna þess að borgin á veð í byggingarréttinum. Þá hefði það tekið sinn tíma og kostað sitt með óþægindum og leiðindum fyrir alla. Svo hefði slíkt uppboð sennilegast endað með því að borgin hefði fengið byggingarréttinn til sín – því ég á ekki von á því að annar hefði boðið betur. Þá er niðurstaðan sú sama eins og sé þessi leið farin. En það sparast kostnaður og umstang.“
Sigríður Rut segir að hún kaupi ekki þá röksemdafærslu að borgin leysi til sín lóðina til að spara innheimtukostnað. „Borgin fer ekki í nauðungarsöluferli eins og kveðið er á um að sé heimilt í lánasamningunum við Reykjavíkurborg heldur eru sérstaklega heimiluð formleg skil á lóðunum.“ Hópurinn hafi þegar brugðist við þessari nýju heimild borgarráðs, því hún styrki röksemdir þeirra um að jafnræðis lóðarhafa í Úlfarsárdal sé ekki gætt. „Hér og þar hafa einhverjir fengið að skila lóðum og aðrir ekki. Núna tekur steininn úr.“