Héraðsverk ehf. á Egilsstöðum bauð lægst í lagningu á 11 km vegkafla á milli Litla Sandfells og Haugaár í Skriðdal á Fljótsdalshéraði. Tilboð Héraðsverks hljóðaði upp á 65% af kostnaðaráætlun en kostnaðaráætlun hljóðar upp á 495 milljónir króna. Átta buðu í verkefnið.
Í fréttatilkynningu er haft eftir Ágústi Ólafssyni, framkvæmdastjóra Héraðsverks að ástæðan fyrir því að fyrirtækið gat boðið jafn lágt í verkið og raun ber vitni vera staðsetning fyrirtækisins. Segir hann að Vegagerðin sé langstærsti verkkaupi á þessu sviði og mikilvægt að þar séu óraunhæf undirboð illra staddra fyrirtækja ekki látin keyra vel rekin fyrirtæki í þrot.
Héraðsverk var stofnað 1988 af fjölmörgum smærri verktökum á Fljótsdalshéraði og hefur frá upphafi einbeitt sér að stærri verkum, Félagið hefur m.a. séð um gerð snjóflóðavarnargarða á Siglufirði, vegalagningu í Búlandshöfða á Snæfellsnesi auk fleiri stærri verkefna. Í dag eru helstu verkefni félagsins á norðausturhluta landsins, þ.e. lagning vegar milli Kópaskers og Þórshafnar (Hófaskarð og Sævarland) og nýs kafla á þjóðvegi 1 innst í Jökuldal (Arnórsstaðamúli).