Flugvallarvegur breikkaður fyrir 45 milljónir

Unnið er að breikkun Flugvallavegar
Unnið er að breikkun Flugvallavegar

Framkvæmdir eru hafnar við breikkun Flugvallarvegar frá Bústaðavegi, meðfram Valssvæði og út fyrir heimreið að Keiluhöllinni. Með þessum vegabótum verður aðgengi að nýjum húsakynnum Háskólans í Reykjavík bætt, en gert er ráð fyrir aukningu umferðar þegar hann opnar. Verkinu verður lokið fyrir haustið.

Breytingar verða gerðar á gatnamótum Flugvallarvegar og Bústaðavegar.  Tvær beygjuakreinar verða fyrir vinstribeygju frá Bústaðavegi inn á Flugvallaveg og þá verður beygjuakrein af Flugvallarvegi úr suðri og austur Bústaðaveg breytt og tekin framhjá ljósum.  Ljósastýring gatnamótanna verður aðlöguð aukinni umferð inn Flugvallaveg. Skynjarar fyrir umferðarstýringu verður komið fyrir og munu upplýsingar nýtast við að gera ljósastýringuna skilvirkari á annatímum, að því er segir á vef framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar.

Hluti af framkvæmdinni er endurnýjun stétta og stíga, sem og annar yfirborðsfrágangur og ræktun. Einnig þarf að endurnýja lagnir eða færa eldri lagnir.

Áætlaður heildarkostnaður við verkefnið er 45 milljónir og skiptist hann milli nokkurra samstarfsaðila, en þeir eru þessir (kostnaðarhlutdeild er innan sviga):  Framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar (47%), Vegagerðarinnar (25%), Orkuveitunnar (22%), Gagnaveitu (1%) og Mílu (5%).

Verkefnastjóri Framkvæmda- og eignasviðs er Róbert G. Eyjólfsson.  Verktaki er Vélaleiga A.Þ. ehf. , sem valinn var að undangengnu útboði. Verfræðistofan Mannvit sá um hönnun. Eftirlit með framkvæmdum er í höndum verkfræðistofunnar Hnits.


Teikning af svæðinu
Teikning af svæðinu
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka