Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að fólk verði að fara horfast í augu við hversu alvarleg staða ríkissjóðs sé. Erfiðleikarnir verði ekki umflúnir og umræðan verði að taka mið af því.
Framsóknarmenn gagnrýndu harðlega í fyrradag að engin alvörumál væru á dagskrá þingsins sem vörðuðu stöðu heimilanna og erfiðleikana í þjóðarbúinu.
Steingrímur segir að menn hafi kannski ekki náð utan um hvaða verkefni bíði hér í ríkisfjármálum þótt stærðirnar liggi fyrir opinberlega. Það þurfi að ná 170 milljarða halla niður í núll á fáeinum árum. Þetta sé hinn kaldi veruleiki sem verði ekki umflúinn og það þurfi að taka stór skref í þá átt strax. Ef að menn geri það ekki sligi vaxtakostnaðurinn þjóðarbúið á fáeinum árum. Hann segist spá því að umræðan eigi eftir að breytast og menn hætti að gagnrýna að það sé ekki nóg að gert í þessu eða hinu þegar þeir horfist af alvöru í augu við þessar staðreyndir.
Ath: Fyrirsögninni: Þjóð í afneitun, breytt að ósk starfsmanns VG sem sagði ráðherrann einungis hafa verið að vísa til framsóknarmanna.