Fréttaskýring: Fyrirsjáanlegt að tekjur sveitarfélaga muni ekki duga

Nemendur í grunnskóla. Sveitarfélög leita nú leiða til þess að …
Nemendur í grunnskóla. Sveitarfélög leita nú leiða til þess að lækka kostnað og er meðal annars horft til þess að fækka skóladögum um tíu, úr 180 í 170. mbl.is

Staða sveitarfélaga er það slæm að fátt annað en þvingaðar sameiningar, niðurskurður, almenn hagræðing og lagabreytingar virðist geta komið mörgum þeirra til bjargar. Allt frá því að stoðir íslensku krónunnar brustu á vormánuðum í fyrra, og fordæmalaus niðursveifla tók við eftir hrun bankakerfisins í október, hefur staða margra sveitarfélaga verið tvísýn. Hugmynd um fækkun skóladaga, úr 180 í 170, er eitt af mörgu sem sveitarfélög íhuga nú að hrinda í framkvæmd til þess að bæta rekstrarumhverfið. Það er í augnablikinu fjandsamlegt og blikur eru á loft um, að það geti verið það í nokkur ár ef ekkert verður að gert.
 

Alvarlegur undirtónn

Halldór Halldórsson, formaður Samband íslenskra sveitarfélaga, hefur upplýst um það í Morgunblaðinu að alvarlegur rekstrarvandi sveitarfélaga, ekki síst íþyngjandi skuldir í erlendri mynt, kalli á lagabreytingar. Yfirlýsing af þessu tagi er látlaus við fyrstu sýn en í henni er alvarlegur undirtónn. Tekjur sveitarfélaga nægja ekki til þess að halda uppi því þjónustustigi sem þeim ber samkvæmt lögum, og útlit er fyrir að svo verði á næstu þremur árum hið minnsta, miðað við efnahagsspár seðlabankans og fjármálaráðuneytisins. Þar er ekki síst íþyngjandi fjármagnskostnaður helst ástæðan. Sveitarfélög hafa mörg hver fjármagnað framkvæmdir á liðnum árum með erlendum lánum. Þau hafa ríflega tvöfaldast á einu ári. Auk þess bera lán í íslenskum krónum háa vexti – raunar þá hæstu í heimi. Þau taka mið af vaxtastiginu sem er í landinu en stýrivextir eru nú 13 prósent.
Örfá sveitarfélög eru í ásættanlegri stöðu, þar á meðal Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Vestmannaeyjabær, en flest glíma við erfitt rekstrarumhverfi, ekki síst vegna mikils fjármagnskostnaðar.

Áætlanir í uppnámi

Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga fyrir þetta ár tóku hjá flestum mið af spá Seðlabanka Íslands, frá því fyrir áramót, um stöðu mála á þessu ári. Í henni kom fram að tekjur sveitarfélaga gætu fallið um 15,5 prósent á þessu ári. Spáin gerði enn fremur ráð fyrir því  að gengi krónunnar myndi styrkjast mun meira en raunin hefur verið. Í stað styrkingar hefur krónan veikst frá því í upphafi árs. Gengisvísitalan var rúmlega 200 í upphafi ársins en er nú um 230. Uppfærð spá Seðlabankans gerir ráð fyrir því að krónan muni lítið styrkjast frá því sem nú er næstu þrjú ár. Það eru alvarleg tíðindi fyrir sveitarfélögin, ekki síst dótturfélög þeirra sem hafa á undanförnum árum staðið, mörg hver, í umfangsmiklum framkvæmdum.
Skuldir sveitarfélaga vegna skuldbindinga þeirra sem teljast til A-hluta efnahagsreiknings nema 230 til 240 milljörðum króna. Þar af eru um 50 milljarðar í erlendri mynt. Til A-hlutans telst rekstur grunnþjónustu sveitarfélaga sem fjármögnuð er með útsvarstekjum að mestu.

Eignirnar hækka hjá OR í kreppunni

Vandamálin eru hins vegar meiri þegar horft er til B-hlutans sem dótturfélög, s.s hafnarsjóðir og orkuveitur, tilheyra. Skuldir sveitarfélaga sem tilheyra B-hluta hafa þó ekki verið teknar saman, samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Fyrir liggur þó að þær eru umtalsvert hærri en skuldir sem tilheyra A-hluta.

Til samanburðar nema skuldir Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um 230 milljörðum miðað við gengisvísitöluna eins og hún er nú, eða tæplega 2 milljónum á hvern íbúa í Reykjavík. Skuldir fyrirtækisins hafa hækkað um 110 milljarða á einu ári. Vandi fyrirtækisins er ekki síst sá að það er með tiltölulega lítið hlutfall af tekjum sínum í erlendri mynt, eða um 20 prósent. Fari svo að krónan styrkist ekki, eins og spár bæði seðlabankans og fjármálaráðuneytisins gera ráð fyrir, verður breytingin á rekstrarumhverfi OR varanleg til hins verra.
Þrátt fyrir þessa miklu hækkun á skuldum hafa forsvarsmenn OR borið sig vel og sagt stöðu fyrirtækisins sterka. Hafa þeir bent á að eiginfjár hlutfall fyrirtækisins er um 18 prósent, þrátt mikla hækkun skulda. En ekki er allt sem sýnist í þeim efnum. Á síðasta ári, á sama tíma og krónan hrundi, voru eignir OR endurmetnar í takt við nýjar bókhaldsaðferðir. Endurmatið leiddi til þess að eignir OR urðu umtalsvert verðmætari heldur en áður, eða sem nam um 5 til 10 prósentum. Það er 13 til 26 milljarðar króna miðað eignastöðu fyrirtækisins í lok árs. Af þessari stöðu tekur eiginfjárhlutfall mið. Heimildarmenn mbl.is segja það einkennilegt að eignir fyrirtækisins séu í bókum fyrirtækisins umtalsvert verðmeiri nú en fyrir hrun. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja hins vegar að endurmatið hafi farið fram vegna þeirra reikniskilaaðferða sem krafist er, ekki síst af erlendum matsfyrirtækjum sem meta lánshæfi.
Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2008, sem stefnt er á að kynna 2. júní samkvæmt upplýsingum frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra, mun vafalítið taka talsvert mið af erfiðri stöðu OR.

Lágir vextir nú bót í máli – En hvað svo?

Fleiri fyrirtæki sem eru í eigu sveitarfélaga, meðal annars Hitaveita Suðurnesja,  Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur, glíma öll við það að eigin féð hefur gufað upp að mestu með falli krónunnar. Reyndar er það svo, í tilfelli Orkuveitu Húsavíkur, að eiginfjár hlutfallið er neikvætt um tíu prósent, þ.e. fyrirtækið er tæknilega gjaldþrota. Þar hefur orkuverð til íbúa verið hækkað á undanförnum mánuðum vegna erfiðrar stöðu fyrirtækisins.
Það sem bjargar þessum fyrirtækjum nú frá því að ráða ekki við þessa auknu skuldabyrði, er lágt vaxtastig á lánum. Þar skipta stýrivextir erlendra seðlabanka miklu máli en þeir hafa allir sem einn lækkað vexti mikið á undanförnum misserum til þess að freista þess að koma hjólum hagkerfa af stað. Vaxtastigið er víða á bilinu 0,25 til 1,5 prósent. Ódýrt lánsfé frá seðlabönkum er þannig ein af aðgerðunum sem gripið er til vegna almennra þrenginga, ekki síst í grunnatvinnuvegum.
Vaxtabyrðin af lánunum sem hafa tvöfaldast á einu ári er því hjá mörgum viðráðanleg sem stendur, að mati forsvarsmanna fyrirtækjanna. Sumir hafa raunar gengið svo langt að segja að staða fyrirtækjanna sé „sterk“ þrátt fyrir tvöföldun skulda án þess að eignir aukist á móti. Og hafa þeir þá vitnað til þess að tekjur dugi til þess að borga af lánum.
 Ljóst má vera að þetta lága vaxtastig, sem er það lægsta sem verið hefur í heiminum í meira en 50 ár, mun ekki vara að eilífu. Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hefur raunar látið hafa eftir sér að seðlabankar verði að passa að „gera ekki sömu mistökin tvisvar“, og vitnar þar til þess sem sumir telja vera frumorsök heimskreppunnar í dag. Of langt tímabil ódýrs lánsfjár, ekki síst í Bandaríkjunum.
Hver prósentustigs hækkun vaxta hjá erlendum seðlabönkum getur þannig leitt til hækkunar fjármagnskostnaðar upp á milljarða fyrir íslenska skattgreiðendur. Vegna skuldsetningar sveitarfélaga í erlendri mynt.

Orkuveita Reykjavíkur. Skuldir fyrirtækisins jafngilda tæplega tveimur milljónum á hvern …
Orkuveita Reykjavíkur. Skuldir fyrirtækisins jafngilda tæplega tveimur milljónum á hvern íbúa í Reykjavík. Endurmat á eignum fyrirtækisins leiddi til þess að eignirnar hækkuðu umtalsvert í verði. mbl.is/ÞÖK
Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Hann hefur sagt að seðlabankar verði …
Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Hann hefur sagt að seðlabankar verði að horfa til þess að halda vöxtum ekki of lengi lágum. Vaxtastig erlendra seðlabanka kemur beint við fjármagnskostnað sveitarfélaga hér á landi. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka