Fyrsta norsk-íslenska síldin í land

Kristján Hauksson og Stefán Stefánsson hásetar á Jónu Eðvalds.
Kristján Hauksson og Stefán Stefánsson hásetar á Jónu Eðvalds. Mynd Sigurður Mar Halldórsson

Verið er að landa fyrstu förmum sumarsins af norks-íslensku síldinni á Hornafirði, en skipin Jóna Eðvalds og Ásgrímur Halldórsson komu í land nú seinni partinn með samtals um 2.100 tonn.

Síldin veiddist um 160-80 sjómílur norð-austan af Langanesi á Drekasvæðinu í íslenskri lögsögu og var mokveiði að sögn Sigurðar Bjarnasonar, skipstjóra á Jónu. Hann segir nokkra vertíðarstemningu myndast í kringum fyrstu síldina og er vongóður um að markaður sé fyrir hendi í Austur-Evrópu. Og síldin lítur vel út að sögn Sigurðar. „Það er svolítil áta í henni, en ég vona að það verði búið að jafna sig.“ Ásgrímur og Jóna fylgdust að á veiðunum og lenti Ásgrímur í örlitlum vandræðum á leið til hafnar. „Síldin er ekki orðin feit, hún er horuð ennþá og þung og það rífur báða pokana hjá þeim,“ segir Sigurður. Jóna dró því trollið til hafnar á móti Ásgrími.

Nokkuð er síðan fréttist af því að búið væri að finna síld en hún var ekki komin í form fyrir veiðar fyrr en nú að sögn Sigurðar, sem segir að hún muni fitna fljótt þegar líður á sumarið. „Hún er komin í æti, það voru flekkir þarna hjá henni þannig að hún fer fljótlega að fitna.“

Ásgrími Halldórssyni og Jónu Eðvalds verður stefnt út að nýju á sunnudagsmorgun og má búast við því að fleiri skip rói á sömu mið að sögn Sigurðar. „Við erum bjartsýnir á sumarið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka