Harma viðbrögð Samfylkingar

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is

„Umræða um að verið sé að standa vörð um sérhagsmuni er fjarstæðukennd enda er hlutverk sveitarstjórnarmanna að gæta að hagsmunum sinna sveitarfélaga,“ segja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum í tilkynningu vegna umræðu um sjávarútvegsmál.

Í tilkynningunni eru viðbrögð Samfylkingarinnar við ályktunum sveitarstjórna víð um land um fyrningarleið í sjávarútvegsmálum, þar sem stefnt er að innköllun 5 prósent veiðiheimilda á ári, hörmuð. „Ekki er hægt að sitja undir aðdróttunum,“ segir tilkynningunni.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum leggjast alfarið gegn því að fyrningarleið verði farin ef breyta á fiskveiðistjórnunarkerfinu. „Staðreyndin er sú að fyrningarleiðin mun setja atvinnulíf þessara útgerðarbæja í rekstrarvanda á örfáum árum og gera þau gjaldþrota á 7 árum,“ segir í tilkynningu bæjarfulltrúanna, sem Elliði Vignisson bæjarstjóri undirritar.

Tekið er fram að Vestmannaeyjabær eigi mikið undir sjávarútvegi og ekki sé hægt að samþykkja breytingar sem setji rekstur fyrirtækja í uppnám. Bæjarfulltrúar flokksins segja enn fremur: „Fyrningarleið Samfylkingarinnar er andstæð hagsmunum Vestmannaeyja og hefur henni verið einróma hafnað af bæjarstjórn Vestmannaeyja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert