Húsleit gerð á 10 stöðum

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Kristinn Ingvarsson


Í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara á kaupum félagsins Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlut í Kaupþing banka fóru fram húsleitir á tíu stöðum í dag og síðastliðinn þriðjudag, að undangengnum úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur.

Félagið Q Iceland Finance er í eigu Ólafs Ólafssonar og sjeiks Mohamed Bin Khalifa Al-Thani. Kaupþing veitti Ólafi, sem á þeim tíma var annar stærsti hluthafi bankans, lán fyrir helmingi kaupverðsins í gegnum félag hans sem skráð er á Jómfrúreyjum, tryggt með veði í bréfunum sjálfum og án persónulegrar ábyrgðar hans sjálfs.

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur sagt að engir fjármunir hafi farið úr Kaupþingi vegna fjármögnunar á kaupum sjeiksins, en fyrir liggur að bankinn keypti upp eigin bréf af öðrum fjárfestum til þess eins að selja sjeiknum, að því er fram kom í Morgunblaðinu í janúar sl..

Til rannsóknar er grunur um meinta markaðsmisnotkun og eftir atvikum brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við umrædd kaup á hlutabréfum í bankanum í lok september 2008. Um er að ræða verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda manns. Yfirheyrslur vegna rannsóknarinnar eru hafnar af hálfu embættisins.

Aðgerðirnar í dag voru víðtækar og hófust með leit á þremur stöðum samtímis kl. 10 í morgun. Alls tóku um 20 manns þátt í þeim þ.e. starfsmenn embættisins, lögreglumenn frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sem og starfsmenn frá Fjármálaeftirlitinu.

Frekari upplýsingar um framgang rannsóknarinnar er ekki unnt að veita að svo stöddu vegna rannsóknarhagsmuna, að því er segir í tilkynningu.

Markaðsmisnotkun varðar sex ára fangelsi.

Ólafur Ólafsson, sem á þeim tíma var annar stærsti eigandi …
Ólafur Ólafsson, sem á þeim tíma var annar stærsti eigandi Kaupþings, ásamt meðlimi Al-Thani fjölskyldunnar og öðrum vinum í Flatey sl. sumar. Ljósmynd/Hanna Lilja
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert