Lagastofnun skoðar Samvinnutryggingar

Gömlu höfuðstöðvar Samvinnutrygginga.
Gömlu höfuðstöðvar Samvinnutrygginga. Árni Sæberg

Lagastofnun Háskóla Íslands vinnur nú að úttekt á starfi Samvinnutrygginga allt frá stofnun. Sérstaklega er Lagastofnun gert að meta hver lagaramminn hafi verið í kringum starfsemi félagsins. Úttektin er unnin að beiðni fulltrúaráðs Samvinnutrygginga.

Eignir Samvinnutrygginga voru um tíma miklar. Um mitt ár 2007 var tekin ákvörðun um að slíta tryggingafélaginu og greiða rúmlega 50 þúsund fyrrverandi tryggingatökum fyrir eignarhlut sinn í félaginu, þ.e. þeim sem áttu rétt til þess. Utan um skuldbindingar félagsins var stofnað fjárfestingafélag, Gift, og var eigið fé þess um 30 milljarðar þegar ákvörðun um slit var tekin.

Ekkert varð af slitunum og er nú svo komið að skuldir Giftar eru að a.m.k. 30 milljarðar umfram eignir og því ekkert til skiptanna. Stærstu eignir Giftar voru í skráðum félögum, einkum bönkunum. Þar helst voru Kaupþing og Exista en Gift var meðal tíu stærstu hluthafa á báðum stöðum, þegar bankarnir hrundu í byrjun október í fyrra.

Stefán Már Stefánsson prófessor hefur umsjón með úttektinni fyrir hönd Lagastofnunar. Hann vildi ekki tjá sig um vinnuna við úttektina þegar blaðamaður mbl.is leitaði til hans, að öðru leyti en því að líklegt væri að úttektinni myndi ekki ljúka fyrr en í haust. Þá sagði Stefán Már að fyrst og fremst væri vinnunni ætlað að skoða lagaumhverfið, og eftir atvikum skýra það, sem Samvinnutryggingar hefðu starfað í.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert