Sendinefnd AGS í heimsókn

Bogdan Cristel

Sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, AGS, er komin til landsins til viðræðna við íslensk stjórnvöld og fleiri hagsmunaaðila. Í umræðum á Alþingi á miðvikudag sagðist Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar þingsins, reikna með að sendinefndin fundaði með íslenskum fjölmiðlum á fimmtudag í næstu viku.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hóf umræðuna og sagði ýmsar spurningar vakna um þessa heimsókn. Meðal annars af hverju sjóðurinn væri ekki búinn að ganga frá láninu til Íslands, nú þegar sex mánuðir væru liðnir frá því að skilmálar voru samþykktir. Taldi Eygló það gagnrýnivert að sendinefnd frá sjóðnum kæmi til landsins við þessar aðstæður, heimsóknin væri greinilega að frumkvæði sjóðsins en ekki stjórnvalda.

Helgi Hjörvar sagði að heimsókn AGS ætti ekki að koma neinum á óvart, hún væri í samræmi við áætlun sjóðsins og þá tilkynningu sem gefin hefði verið út í febrúar sl. Eftir væri að fara yfir nokkur tæknileg úrlausnarefni, eins og þingmaðurinn orðaði það. Sagði Helgi að sendinefnd sjóðsins væri að skoða heildarstöðu þjóðarbúsins, ekki ríkisins sérstaklega heldur frekar atvinnulífsins í heild.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, fagnaði því að sendinefnd AGS væri komin til landsins. Ræða þyrfti ýmis brýn mál, m.a. vexti á láni ríkisins. Sagði hún vextina hærri en almennt gerðist og ríkið væri að greiða um fimm milljónir króna á dag vegna fyrstu greiðslunnar síðan í nóvember. Greiðslan væri geymd í Bandaríkjunum á umtalsvert lægri vöxtum og brýnt væri að nefna lækkun stýrivaxta við nefndina.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert