Fangavarðafélag Íslands skorar á stjórnvöld að standa bæði við áætlanir um byggingu nýs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu og uppbyggingu fangelsisins að Litla-Hrauni. Fangelsi landsins hafa verið yfirfull lengi og biðlistar eftir afplánun lengjast í hlutfalli við fjölgun fangelsisdóma. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar félagsins.
„ Stefna fangelsisyfirvalda byggir á hugmyndum um fangelsun sem betrun og hefur starf fangavarða færst í átt að þessum hugmyndum síðustu ár og áratugi. Á sama tíma eru tvö af fimm fangelsum á Íslandi nú úrelt samkvæmt evrópskum reglugerðum, annað bíður niðurrifs og hitt er rekið á síendurnýjaðri undanþágu frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum.
Frestun stjórnvalda á framkvæmdum bitnar fyrst og fremst á þeim sem dæmast til fangelsisvistar, en einnig því hæfa fólki sem myndar stétt fangavarða. Á meðan húsakostur og aðbúnaður helst óbreyttur er störfum þeirra hins vegar mjög þröngur stakkur skorinn og þekking þeirra og hæfni illa nýttar. Líklega kristallast þessi vandi best í nafni Hegningarhússins við Skólavörðustíg 9 sem er barn síns tíma og endurspeglar gömul og úrelt gildi sem löngu er orðið tímabært að leggja."