Framsóknarmenn vilja leiðrétta mistök viðskiptaráðherra

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir.

Þingmenn Framsóknarflokksins hyggjast leggja fram frumvarp til laga á mánudag sem er ætlað að leiðrétta mistök sem viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, gerði í lögum um fjármálafyrirtæki sem sett voru fyrr á árinu.

Kemur þetta meðal til út af túlkun slitastjórna Straums-Burðaráss og Sparisjóðabankans um greiðslur á launum til starfsmanna.

Lögin áttu að auka sjálfstæði slitastjórna og skýra hlutverk þeirra.  Hins vegar hafa ákvæði þeirra verið túlkuð á þann máta af slitastjórnum Straums-Burðaráss og Sparisjóðabankans að þeim sé ekki heimilt að greiða forgangskröfur eins og laun starfsmanna í uppsagnafresti fyrr en fyrsti kröfuhafafundur hefur farið fram. Gera má ráð fyrir að þeir fundir verði ekki haldnir fyrr en eftir 3-4 mánuði, samkvæmt upplýsingum frá Eygló Harðardóttur, þingmanni Framsóknarflokksins.
   
„Mér skilst að málið hafi hugsanlega verið rætt á ríkisstjórnarfundi þann 15. maí en ríkisstjórnin ákvað frekar að setja lagabreytingar vegna starfandi stjórnarformanna, upplýsingagjöf til hlutafélagaskrár, EES-lagabreytingar um samruna, vörumerki og reglugerðir í forgang á dagskrá þingsins á miðvikudaginn," segir Eygló. 
 
Samkvæmt frumvarpi framsóknarmanna bætist við 6. mgr. 102. gr. laganna  tveir nýir málsliðir: „Slitastjórn er heimilt að greiða forgangskröfur fyrir fyrsta kröfuhafafund ef stjórnin telur að forgangskröfur fáist greiddar að fullu eða hlutfallslega miðað við áætlaðar heimtur á jafnstæðum kröfum.

Einnig er slitastjórn heimilt að greiða út forgangskröfu ef aðrir kröfuhafar sem eru jafnsettir samþykkja greiðsluna."
 
Þar með er slitastjórn ekki skylt að greiða út forgangskröfur, heldur aðeins heimilt og getur því staðið við loforð sín um að greiða laun starfsmanna í uppsagnafresti.
 
Eygló telur að þetta mál sýni enn og aftur hversu einkennilegar áherslur ríkisstjórnarinnar eru.  „Hefði ekki verið mun nær að leggja fram lagafrumvarp til að tryggja fólki laun sín og fá það inn á dagskrá með afbrigðum frekar en mál sem hafa lítið sem ekkert við núverandi efnahagsástand að gera?

Forystumenn ríkisstjórnarinnar töluðu í sífellu á meðan þeir funduðu í Norræna húsinu að það væri stjórn í landinu og varla hefur viðskiptaráðherra haft mikið með stjórnarmyndunarviðræðurnar að gera? Samt koma þau nánast óundirbúin til Alþingis.
 
Við framsóknarmenn hefðum verið tilbúin að funda á föstudaginn ef þetta mál eða einhver önnur sem raunverulega varða efnahagsástandið hefðu verið sett á dagskrá.  Í staðinn var þingið sent heim og við höfum miklar áhyggjur að þessir starfsmenn munu ekki fá greidd út laun sín um þessi mánaðarmót vegna sinnuleysis ríkisstjórnarinnar," segir Eygló.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert