Talið tengjast rannsókn hjá SAF

Samkeppniseftirlitið
Samkeppniseftirlitið mbl.is/Golli

Starfs­menn Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins gerði hús­leit hjá nokkr­um hót­el­um síðastliðinn miðviku­dag. Þeir komu meðal ann­ars á skrif­stofu fram­kvæmda­stjóra Icelanda­ir Hotels og sóttu þangað tölvu­gögn og eins á Hót­el Ísland.

Talið er að hús­leit­in sé í tengsl­um við rann­sókn á mögu­leg­um sam­keppn­is­brot­um í ferðaþjón­ustu sem hófst 2007.

Magnea Þórey Hjálm­ars­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Icelanda­ir Hotels, sagði að stafs­menn Sam­keppn­is­stofn­un­ar hafi mætt á skrif­stofu sína kl. 9.10 um morg­un­inn og tekið tölvu­gögn. Þeir fóru ekki í gögn eða tölv­ur annarra starfs­manna fyr­ir­tæk­is­ins.

„Þeir komu bara inn til mín og tóku gögn hjá mér,“ sagði Magnea í sam­tali við mbl.is. Hún sagði að menn­irn­ir hafi ekki staldrað lengi við og sagðist ekki hafa hug­mynd um hvers vegna hús­leit­in var gerð.

„Ég veit ekk­ert meira um þetta. Þeir segja ekk­ert en hafa þenn­an rétt að fara inn,“ sagði Magnea. Hún sagðist ekki vita um til­efni hús­leit­ar­inn­ar en fólk geti velt því fyr­ir sér hvort hún teng­ist hús­leit sem var gerð hjá Sam­tök­um ferðaþjón­ust­unn­ar í mars 2007.

„Við höf­um ekki hug­mynd um það og maður fær eng­ar upp­lýs­ing­ar. Alla vega ekki eins og er. Þeir kannski láta mann vita ein­hvern tíma af því,“ sagði Magnea.

„Við höf­um ekk­ert að fela og höf­um ekki farið á svig við nein lög. Við vit­um í raun ekki af hverju þeir komu en get­um ímyndað okk­ur að þetta sé út af þessu eld­gamla máli,“ sagði Magnea. „Við lát­um þetta ekk­ert trufla okk­ar starf­semi.“

Kristján Daní­els­son, fram­kvæmda­stjóri Hót­els Sögu, sagði að starfs­menn Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins hafi komið og fengið gögn á Hót­el Íslandi. Hót­el Saga og Hót­el Ísland eru rek­in und­ir sama hatti.

„Þeir sóttu nú ekki mikið af gögn­um, þetta var voðal­ega lítið,“ sagði Kristján. Hann kvaðst ekki hafa séð leit­ar­heim­ild­ina og því ekki vita um hvað málið sner­ist.  Kristján taldi lík­legt að hús­leit­in tengd­ist rann­sókn­inni sem gerð var hjá SAF í mars 2007.

Þórður B. Sig­urðsson, fram­kvæmda­stjóri Foss­hót­ela, kvaðst ekki vita til þess að starfs­menn Sam­keppn­is­stofn­un­ar hafi gert hús­leit hjá fyr­ir­tæk­inu á miðviku­dag­inn var.

Í frétt­um Rík­is­út­varps­ins kom fram að hús­leit hafi verið gerð hjá Grand hót­el en Foss­hót­el til­heyra sömu keðju.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert