Hópur hestamanna sem ætlar að sundríða straumvötn á Suðurlandi kemur í Heiðadal í Mýrdal í kvöld. Þeir lögðu upp frá Hörgslandi á Síðu í morgun og eru að ljúka 80-90 km dagleið. Ferðin hefur gengið að óskum.
Hermann Árnason, sem fer fyrir hópi sjö reiðmanna á 44 hestum, sagði að ferðin hafi gengið að óskum. Sum vatnanna hafa líklega aldrei verið sundriðin áður, eins og t.d. ós Jökulsár á Breiðamerkursandi. Einnig hafa þeir lagt að baki m.a. Hornafjarðarfljót, Kolgrímu, Fjallsá, Skeiðará, Gígju, Núpsvötn, Skaftá, Kúðafljót og nú Múlakvísl.
Hermann sagði að Kúðafljótið hafi legið ágætlega fyrir þeim, en það er mjög vatnsmikið. „Okkur gekk vel að velja það og gekk algerlega áfallalaust,“ sagði Hermann. Í dag fóru þeir yfir Múlakvíslina.
„Það er nú lítið í henni, en hún er alltaf gríðarlega ströng af því hún er svo brött, sérstaklega þarna innfrá. Við fórum frá Hafursey og yfir hana inn undir Höfðabrekkuafrétti,“ sagði Hermann.
„Við erum að framlengja deginum. Ætluðum að vera í Álftaveri í nótt en menn voru svo hressir og hestar þannig að við erum með óhemju langa dagleið í dag. Frá Hörgslandi á Síðu og út í Heiðadal. Ætli þetta séu ekki 80-90 kílómetrar,“ sagði Hermann.
Hann sagði hestana vera bratta. „Þetta eru allt saman jaskajálkar og bæði menn og hestar vanir svona. Hér er ekki nokkur maður uppgefinn og ekki nokkur hestur.“
Nestið í ferðinni er matur sem stendur undir. Þjóðlegir réttir á borð við hangikjöt, svið, kjötsúpu, baunasúpu, súrt slátur og lifrarpylsu. Grænmeti er bannað - en hestarnir eru þó á grænmetisfæði, þ.e. heyi.
Hermann sagði að ýmsir hafi verið svartsýnir á að þetta væri hægt. Nú er búið að sanna það. Hann minnti á að landpóstar fyrri ára hafi þó barist við vötnin ströng og líka fornmennirnir eins og t.d. Njála greinir frá.
Ætlun hópsins er að sundríða öll fallvötn frá Höfn í Hornafirði að Selfossi. Þeir hófu ferðina að kvöldi 19. maí. Fyrri áfanga lýkur í kvöld í Heiðardal. Svo verður seinni áfanginn, úr Mýrdal að Selfossi, farinn um hvítasunnuhelgina. Nú tekur við vinnuvika hjá leiðangursmönnum, en þeir ætla að taka upp þráðinn aftur næstkomandi föstudag.