Kraftaverk á Gaza

Shaimáa Abu Safi, 18 ára gömul stelpa sem missti fótinn …
Shaimáa Abu Safi, 18 ára gömul stelpa sem missti fótinn í bílslysi

Hópur Íslendinga, sem þessa daga er staddur í Palestínu í þeim tilgangi að gefa gervilimi, hefur undanfarna daga sett gervifætur undir tólf manns sem eru byrjaðir að ganga og jafnvel hlaupa. Þar af er einn sem hafði misst báða fætur. Stemningin og  gleðin á stöðinni er ólýsanleg og þakklætið er óendanlegt.

Sjúklingarnir sem hópurinn afgreiðir er á öllum aldri og af báðum kynjum þó að meirihlutinn séu karlmenn. Allir hafa sína sögu að segja. Margir hafa barist við sykursýki og þurft að láta taka af sér fætur þess vegna.

Einn 74 ára gamall maður fékk gervilim er hann missti hægri fótinn í fyrstu árásum Ísraela þegar Palestína var hernumin og stríðið byrjaði árið 1948. Þó nokkrir sem þau hafa hitt misstu fætur við árásir Ísraela sem hófust um síðustu jól og stóðu til 18. janúar 2009.

Í þeirri árásarlotu misstu allt að 250 manns útlimi en 123 eru á skrá hjá læknastöðinni þar sem hópurinn er við störf. 

Í hópnum sem er í ferðinni til Gaza eru þrír stoðtækjasmiðir, Össur Kristinsson, Johan Snyder (frá S-Afríku) og Óskar Þór Lárusson. Hjálmtýr Heiðdal og Ingvar Ágúst Þórisson heimildakvikmyndagerðarmenn eru einnig með í för, svo og Sigrún Þorgeirsdóttir verkefnisstjóri, Kristín Sveinsdóttir ritari og Sveinn Rúnar Hauksson læknir og formaður Félagsins Ísland-Palestína.

Á meðal þeirra sem hafa fengið hjálp er 17 ára stúlka sem missti vinstri fótinn í umferðarslysi árið 1996 og varð fyrir svo miklu áfalli að hún fékk miklar litabreytingar í andliti sem hafa hrjáð hana. Þessi stúlka er núna, eftir einn og hálfan tíma, komin með tilbúinn gervilim og byrjuð að ganga. 

Allan þann tíma sem hópurinn hefur verið í Palestínu hafa palestínskir sjúkraþjálfarar unnið með þeim og haldið áfram að þjálfa dag eftir dag fólkið sem hefur fengið gervilimi.

„Núna sit ég einmitt og horfi á Hosni Talal þann sem fékk tvo fætur hjá okkur fyrsta daginn og hann hefur tekið rosalegum framförum og nánast búinn að sleppa hækjunum. Þegar lagt var af stað var markmið okkar að skilja eftir þessa þekkingu því að aðferðin sem við notum er bæði einföld og ódýr. Í dag hafa tæknimenn og sjúkraþjálfarar unnið með Össuri, Óskari og Jóhanni og þeir eru strax farnir að ná aðferðinni og byrjaði að hjálpa til við smíðina," segir Sveinn Rúnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert