Nýta strætó meira í kreppunni

Leik- og grunnskólar nýta sér nú þjónustu strætisvagna til vettvangsferða í mun meira mæli en áður hefur tíðkast. Hefur Strætó bs. af því tilefni sent fjölda grunnskóla bréf þar sem mælst er til að skólahópar nýti vagnana ekki á háannatíma, þ.e. á milli kl. 7 og 9 á morgnana og frá kl. 15.30-18 í eftirmiðdaginn. Þá er líka varað við að vandkvæði geti komið upp er stærri hópar en 20 einstaklingar ferðast saman.

„Þegar kreppir að fjárhag, þá kreppir líka að fjárhag skólanna og kostnaður vegna vettvangsferða hefur hækkað eins og annað,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. Ferðum skólahópa með strætisvögnum hafi í kjölfarið fjölgað verulega. Vandamál geti hins vegar fylgt því þegar stórir hópar nemenda mæti, jafnvel á háannatíma, út á næstu biðstöð án þess að gera boð á undan sér. Þá komist stundum ekki allir nemendur með sama vagni og fastagestir ekki með sínum venjulega vagni til eða frá vinnu. Reynir nefnir sem dæmi að nýlega hafi 85 nemendur mætt út á biðstöð og allir ætlað á sama viðburðinn. „Þeir komust ekki allir með og það var hálftími í næsta bíl.“

Gott samband var á árum áður milli Strætisvagna Reykjavíkur og skólanna. „Þá hringdu þeir með nokkurra daga fyrirvara,“ segir hann og kveðst vilja endurvekja það samband. Þannig megi mögulega tryggja að 25 sæta vagn sé t.d. ekki í umferð á leið þar sem von sé á stórum hópi. „Við getum hins vegar ekki verið að flytja fólk í stórum stíl, þar sem af samkeppnisástæðum er ekki hægt að panta eða leigja strætó.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert