„Ég hef mikinn áhuga á náminu og metnað. Ég reyni þannig alltaf að gera mitt allra besta,“ segir María Lind Sigurðardóttir, sem útskrifaðist með hæstu einkunn á stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík í ár. Hún útskrifaðist af náttúrufræðibraut með einkunnina 9,61. Þess má raunar geta að María var með meðaleinkunnina 10 á bekkjarprófum á fjórða og síðasta ári skólans.
„Á þessu síðasta ári valdi ég þau fög sem ég hef mestan áhuga á, þ.e. stærðfræði, efnafræði og eðlisfræði, þannig að það útskýrir sennilega af hverju ég fékk tíu í öllum prófum,“ segir María og tekur fram að vissulega sé hún líka samviskusöm og eyði dágóðum tíma í heimalærdóminn.
María stefnir á háskólanám með haustinu og ætlar að innrita sig í Háskóla Íslands. Hún segist hins vegar ekki enn vera búin að gera upp við sig hvaða nám verði fyrir valinu. „Læknisfræðin kemur sterklega til greina en hins vegar finnst mér líka spennandi að fara í efnafræði eða lífefnafræði,“ segir María.