Sá ekki á töfluna

Helga Theodóra Jónasdóttir var dúx frá Verzlunarskólanum í dag.
Helga Theodóra Jónasdóttir var dúx frá Verzlunarskólanum í dag. Bergljót Gyða Guðmundsdóttir

„Ég lít á sjón- og heyrnarskerðinguna sem hvatningu. Maður setur sér bara raunhæf markmið og gerir svo sitt besta,“ segir Helga Theodóra Jónasdóttir, sem útskrifaðist með hæstu einkunn á stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands í dag. Hún fékk 9,3 í aðaleinkunn.

„Ég hef verið í skólanum án þess að sjá almennilega á töfluna allt frá því ég var lítil,“ segir Helga. Skólagangan hafi oft reynt á þolrifin en Helga er með sjaldgæfan hornhimnusjúkdóm sem heitir CHEB og er hún eini Íslendingurinn sem hefur greinst með þann sjúkdóm.

Sjúkdómurinn lýsir sér í því að móða leggst yfir augun en að sögn Helgu hefur móðan minnkað töluvert á vinstra auga eftir að hún fór í aðgerð í desember. „Fyrst eftir að ég kom í skólann eftir aðgerðina sá ég eiginlega ekki neitt með vinstra. Fyrir aðgerðina var ég með 10-20% sjón á vinstra auga en nú er hún komin upp í 30-40% svo það er mjög gott,“ segir Helga.

Helga útskrifaðist með einkunnina 9,3 af náttúrufræðibraut - líffræðisviði en uppáhaldsfögin hennar eru þýska og íslenska. Hún segist hafa valið líffræðibrautina af því að hún vissi ekki almennilega hvað hún vildi læra. „Það voru því þarna allskonar fög sem ég hef engan áhuga á,“ segir Helga hlæjandi.

Helga segist hafa þurft að treysta mikið á sessunauta sína og vini alla skólagönguna. „Maður hefur þurft að hafa aðeins meira fyrir þessu en aðrir en ég held að það hafi samt bara verið hvatning,“ segir Helga. Hún stefnir á lögfræðinám við Háskóla Íslands í haust.

Helga tekur fyrir það að allur hennar tími fari í námið, hún gefi sér góðan tíma til að stunda líkamsrækt auk þess hún eyði tíma með vinunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert