Sex fyrirtæki gerðu átta tilboð í rekstur bílamiðstöðvar lögreglunnar. Þar af var eitt með þrjú tilboð. Tilboðin voru opnuð 20. maí og er reiknað með að niðurstaða útboðsins liggi fyrir í næstu viku.
Athygli vekur mikill munur á tilboðunum, en hann á sína skýringu. Vélamiðstöðin lagði inn þrjú tilboð. Heildarupphæð þess lægsta var 12.512.094 kr. en heildarupphæð hinna var 370 milljónir og 363,6 milljónir kr. Hæsta tilboð var frá Vara hf. og hljóðaði upp á tæpar 520 milljónir.
Við opnun tilboðanna var lögð fram athugasemd við framkvæmd útboðsins frá framkvæmdastjóra Vélamiðstöðvarinnar. Farið var fram á að tilboðsblöðin yrðu samræmd og opnun tilboðsins frestað.
Guðmundur Hannesson, forstöðumaður ráðgjafarsviðs Ríkiskaupa, sagði að útboðsgögnin hefði mátt skilja svo að annars vegar ætti að margfalda fjölda bíla í hverjum hópi og einingaverð eða hins vegar að gefa einungis upp einingaverð. „Það var sitt á hvað að menn gáfu einungis upp einingaverðið eða margfölduðu það saman við fjöldann á bílunum,“ sagði Guðmundur. Hann sagði fjöldann á bílunum vera í útboðsgögnum og allir tilboðsgjafar hefðu gefið upp einingaverð. Eftir er að fara yfir tilboðin, hæfi bjóðenda og gildi tilboða. Einnig að athuga hvort fjöldi bíla og einingaverð voru margfölduð saman eða ekki. Guðmundur sagði að það yrði einfalt reikningsdæmi að reikna út lægsta tilboð.
Hann taldi að niðurstaðan myndi liggja fyrir fljótlega í næstu viku.