Íslenskur vasaþjófur í Stafangri?

Hálfþrítugur Íslendingur var handtekinn í nótt, grunaður um að hafa stolið frá gestum á veitingastað í Stafangri í Noregi. Að sögn fjölmiða í bænum sáu öryggisverðir og gestir til mannsins stinga höndinni niður í tösku og var lögregla kölluð til. Hún handtók manninn skammt frá veitingastaðnum og færði hann á lögreglustöð.

Stavanger Aftenblad segir, að lögregla hafi átt erfitt með að yfirheyra manninn því hann tali hvorki norsku né ensku að gagni heldur aðeins íslensku. Er haft eftir Egil Vestvik, varðstjóra hjá lögreglunni, að maðurinn hafi gefið til kynna að hann væri saklaus en unnið sé að því að útvega túlk svo hægt sé að yfirheyra hann nánar.

Vestvik segir við blaðið, að maðurinn hafi verið með nokkra sígarettupakka af ýmsum tegundum á sér þegar hann var handtekinn en ekki sé ljóst hvort um sé að ræða þýfi.

Lögregla gerði húsleit í íbúð mannsins í borginni í dag til að kanna hvort þar væri að finna þýfi. Vestvik segir, að mikið hafi verið um vasa- og veskjaþjófnað upp á síðkastið og lögregla útiloki ekki að maðurinn tengist einhverjum slíkum málum. Ekkert grunsamlegt fannst þó í íbúðinni.  

Frétt Stavanger Aftenblad

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka