Reglusemi skilyrði skotvopnaleyfis

Skotvopn.
Skotvopn. Morgunblaðið/Þorkell Þorkelsson

Nefnd sem endurskoðaði vopnalögin og samdi frumvarp til nýrra vopnalaga leggur m.a. til að sett verði skilyrði um reglusemi til að fá að hafa skotvopnaleyfi. Þetta má lesa úr athugasemdum við frumvarpið sem eru birtar á vefsíðu Skotíþróttasambands Íslands. Frumvarpið hefur ekki verið lagt fram á Alþingi.

Í athugasemdum við 17. grein frumvarpsins segir m.a.: „Skilyrði um reglusemi er í löggjöf nokkurra nágrannaríkja og verður að telja bæði eðlilegt og sanngjarnt. Óregla og skotvopnaleyfi geta ekki með nokkru móti farið saman. Óregla er hér hvers konar ofneysla áfengis eða annarra vímugjafa. Óreglu má staðreyna með ýmsum hætti svo sem lögregluskýrslum, læknisvottorðum og öðrum sönnunargögnum.

Þá er það nýmæli að gert er ráð fyrir því að umsækjandi samþykki að lögreglustjóri kanni hvort hann standist skilyrðin um andlega heilbrigði, reglusemi og almennt hæfi. Ekki getur þetta skilyrði talist vera íþyngjandi fyrir umsækjandann þegar litið er til þess að skotvopn eru hættuleg tæki og almenningur hlýtur að mega treysta því að óhæfir einstaklingar fái ekki skotvopnaleyfi.“

Dómsmálaráðherra skipaði nefnd til að endurskoða vopnalögin árið 2008 en þá voru tíu ár frá því gildandi vopnalög voru sett. Í erindisbréfi hennar sagði m.a.: „Á þessum tíu árum hefur reynt á ýmis atriði við túlkun laganna, tækni hefur fleygt fram og þjóðfélagið tekið breytingum. Jafnframt hefur alþjóðlegt samstarf á þessu sviði aukist. Af þessum ástæðum er orðið tímabært að endurskoða vopnalögin og hefur dóms- og kirkjumálaráðherra ákveðið að skipa nefnd í því skyni..“

Athugasemdir við nýtt frumvarp til vopnalaga

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka