„Að öllu óbreyttu stefnir í að 28.500 heimili verði komin í greiðsluþrot undir árslok. Ef við tökum mið af vísitölufjölskyldunni, þá mun það snerta rúmlega 100 þúsund Íslendinga,“ sagði Birkir Jón Jónsson Framsóknarflokki við umræður um efnahagsmál á Alþingi í dag.
Birkir Jón sagði þörf á mjög róttækum aðgerðum til að koma í veg fyrir skelfilega þróun í landinu.
„Við hljótum að líta til þess hvað gerðist m.a. hjá frændum okkar Færeyingum í upphafi tíunda áratugarins þegar hátt í þriðji hver einstaklingur á aldrinum 25 til 45 ára yfirgaf landið. Á Íslandi eru 90 þúsund einstaklingar á þessu árabili og þeir eiga 90 þúsund afkomendur. Þetta er sá fjöldi fólks sem mun fyrst setja niður í ferðatöskurnar og leita sér að nýjum atvinnutækifærum, verði þau ekki til staðar hér á landi,“ sagði hann.