Gunnlaugur Júlíusson, hagfræðingur og langhlaupari, sigraði í gær með nokkrum yfirburðum í 48 klukkustunda hlaupi á Borgundarhólmi í Danmörku. Gunnlaugur hljóp 334 km og var um 11 km á undan næsta manni.
Um þrjátíu keppendur tóku þátt og þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingur sigrar í ofurmaraþoni erlendis svo vitað sé. Gunnlaugur þakkar stífum æfingum og réttu hugarfari þennan góða árangur. Hann segist reyna að hlaupa á hverjum degi og frá ársbyrjun hefur hann hlaupið maraþon í hverri viku til að undirbúa sig.
Japanski rithöfundurinn Haruki Murakami hefur lokið sambærilegu hlaupi og Gunnlaugur vann í gær og hann segir andlegan styrk algjört lykilatriði, sérstaklega á síðustu kílómetrunum þegar fæturnir neiti hreinlega að halda áfram. Gunnlaugur tekur undir með honum. „Til að ljúka svona hlaupi þarf hugarfarið að vera rétt og andlegur styrkur þarf að vera til staðar. Þú verður að berja sjálfan þig áfram og það er svo auðvelt að taka eitt skref út í kant og hætta þegar það eru hundrað þúsund skref eftir í brautinni,“ segir hann.
Gunnlaugur hljóp allan tímann, að undanskildum stuttum matarhléum. „Maður nærist ekkert á geli í svona hlaupi, maður þarf almennilegan mat,“ segir Gunnlaugur, en stórar máltíðir voru útbúnar fyrir hlauparana. Auk þess var ýmis kolvetnarík fæða eins og kex og brauð til staðar á leiðinni. Núna tekur við tíu daga hvíld hjá Gunnlaugi en svo byrjar hann að hlaupa aftur.