Annar hluti AGS-lánsins í júlí

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagðist á Alþingi í dag efast um að það hefði nein áhrif á gjaldeyrisforðann þó greiðsla annars hluta láns Alþjóðagjaldeyrisssjóðsins (AGS) hafi frestast. Stefnt væri að því að hægt verði að greiða annan hluta lánsins í júlí.

„Sumir hafa verið að tala um að það hafi áhrif á gengið en það skiptir ekki máli hvenær lánið er greitt út á þessum mánuðum, þar sem núverandi gjaldeyrisforði landsins er nægilga öflugur til að standa við bakið á krónunni með gjaldeyrishöftunum, svo lengi sem höftin eru til staðar,“ sagði Jóhanna

„Það er t.d. vafasamt að halda því fram að þetta hafi áhrif á gengið. Ég held að þetta breyti ekki miklu. Hefðum við fengið þetta fyrr og við höfum ekki nýtt þá peninga sem við höfum hingað til fengið t.d. frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, eða Norðurlöndunum, þannig að það er bara geymt á bók. Ef við hefðum fengið þetta fyrr þá hefðum við fyrr þurft að byrja að greiða vexti af þessu og svo framvegis,“ sagði Jóhanna.

Þetta kom fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem spurði um ástæður þess að önnur greiðsla á láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur tafist eins og raun ber vitni. Sagði hann að þetta væri spurning um trúverðugleika þjóðarinnar út á við og spilaði inn í væntanlega ákvörðun um stýrivexti. Einar sagði að svör ríkisstjórnarinnar hefðu verið mjög óljós.

Jóhanna sagði að ýmislegt hefði orðið þess valdandi að ekki hefði verið hægt að ganga frá endurskoðaðri áætlun við sjóðinn. M.a. þurfi að ná fram endurskipulagningu á bönkunum áður en gengið verði frá áætluninni og vonast væri til að það gæti orðið í byrjun júlí. Stefnt væri að fundi í stjórn AGS í byrjun júlí. Áætlun um ríkisfjármálin þurfi einnig að liggja fyrir og fullyrti Jóhanna að hún muni liggja fyrir í þessum mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert