Karlmaður á fimmtugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gagnvart ungri stúlku. maðurinn hafði umgengist stúlkuna mikið en faðir stúlkunnar er æskuvinur hans. Maðurinn var jafnframt dæmdur til þess að greiða stúlkunni eina milljón króna í skaðabætur og tæpa milljón í sakarkostnað.
Var maðurinn ákærður fyrir að hafa í nokkur skipti á árunum 2004-2007 brotið gegn stúlkunni kynferðislega. Átti þetta sér stað á heimili mannsins en stúlkan gætti oft barna hans.
Brot mannsins voru tilkynnt til lögreglu af barnaverndarnefnd í janúar 2008 en nefndin hafi fengið upplýsingar um hugsanlega misnotkun á stúlkunni frá skólastjóra hennar.
Maðurinn staðfesti við yfirheyrslur hjá lögreglu að hafa átt nánar samræður við stúlkuna um kynlíf þegar hún var að gæta barna hans. Segir hann að stúlkan hafi verið mjög opinská og hann gert þau mistök að kaupa handa henni gervilim. Hafi hlutir þróast þannig að hann hafi þreifað á stúlkunni og fróað sér á sama tíma en ekki hafi verið um kynmök að ræða. Sagði maðurinn að stúlkan hafi verið orðin fimmtán ára þegar þetta var.
Að sögn stúlkunnar hafi áreitið hins vegar byrjað mun fyrr eða þegar hún var tólf ára. Hann hafi byrjað að snerta kynfæri hennar utan klæða er hún hafi 12 til 13 ára en innan klæða er hún hafi verið 14 til 15 ára.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að stúlkan býr við skerta andlega greind og að maðurinn hafi verið sem faðir númer tvö fyrir hana.
Dómurinn segir, að maðurinn eigi sér þær málsbætur að hann hafi játað háttsemi sína að hluta til. Hann hafi tælt unga stúlku, sem honum hafði verið trúað fyrir, til annarra kynferðismaka en samræðis, auk þess sem hann áreitti hana kynferðislega. Hafi brotið verið framið á stað þar sem stúlkan taldi sig vera örugg og af manni sem hún nánast leit á sem föður sinn. Segir dómurinn að stúlkan búi við alvarlegar afleiðingar kynferðisbrots og óvíst sé hvort hún muni ná sér að fullu.