Blautir draumar Samfylkingarinnar

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins,  talaði á Alþingi í dag um blauta drauma Samfylkingarinnar um skilyrðislausa Evrópusambandsaðild.

„Það má vel vera að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði hluti þeirra aðgerða sem grípa verður til svo við náum að rétta hér úr kútnum. en sú þráhyggja, sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru haldnir eru beinlínis hættuleg. Að sumarþingið eigi að snúast um blauta drauma Samfylkingarinnar um skilyrðislausa innlimun í Evrópusambandið í stað almennra aðgerða til lausnar á vanda heimilanna, er einhver sú stærsta smjörklípa sem þessi þjóð hefur augum litið. Og þjóðin mun sjá í gegnum hana," sagði Eygló. 

Hún gagnrýndi stjórnarflokkanna harðlega í ræðu sinni fyrir aðgerðaleysi. Sagði hún að nú væru liðnir 9 mánuðir frá hruninu mikla og 4 mánuðir frá því ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG tók við og harla lítið hefði gerst síðan þá.

Sagði hún að nær allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðuðu að því að bjarga fjármagnseigendum og ekki væri horft í kostnaðinn þar. Þegar kæmi að almenningi fái fjölskyldurnar enga aðstoð fyrir allt sé komið í þrot. Þá bíði svipugöng félagslega kerfisins, tilsjónarmanna, skiptastjóra og nafnbirtingar í Lögbirtingarblaðinu.

Þá hefðu yfirlýsingar núverandi ráðherra VG um gegnsæi ekki lifað af þau umskipti að komast úr stjórnarandstöðu í ráðherrastól. Þegar almenningur tæki sig til og mótmælti aðgerðaleysi stjórnvalda og byðist til að endurvekja búsáhaldabyltinguna uppskeri hann ekkert annað, formælingar og fyrirlitningu frá flokksblaði VG á netinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert