Fékk hjartastopp í lögreglubílnum

Sjóliði af danska varðskipinu Hvidbjörnen, 21 árs gamall, verður að sögn lögreglu ákærður fyrir innbrot, þjófnað og eignaspjöll í Kaupþingi banka í Austurstræti fyrr í kvöld. Hann var handtekinn en fékk hjartastopp í lögreglubílnum. Maðurinn var endurlífgaður og er á sjúkrahúsi.

Lögreglunni var tilkynnt um mann sem væri að sparka sig inn í hraðbanka bankans um kl. 20.30 í kvöld. Þegar lögreglan kom á staðinn var maðurinn kominn alla leið inn í bankann sjálfan.

Sjóliðinn  var mjög æstur og með mikið af íslenskri mynt á sér, aðallega hundrað krónu peninga og tíu krónu peninga sem hann hafði stolið í bankanum. Upprifnir hólkar utan af myntinni voru úti um allt. Eftir er að telja hvað klinkið var verðmætt.

Maðurinn var handtekinn og færður í stóran lögreglubíl í handjárnum. Á leiðinni upp á lögreglustöð lenti maðurinn í hjartastoppi. Talið er líklegt að hann hafi verið undir miklum áhrifum örvandi efna og það kunni að hafa stuðlað að hjartastoppinu.

Lögreglumaður sem var hjá manninum aftur í lögreglubílnum losaði af honum handjárnin og hóf þegar lífgunartilraunir. Lögreglubíllinn ók í forgangi á slysadeild og beitti lögreglumaðurinn hjartahnoði alla leiðina á spítalann. Endurlífgun tókst og var sjóliðinn lagður inn á sjúkrahús þar sem hann dvelur nú.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka