Þingmenn stjórnarandstöðunnar vildu fá að vita um það á Alþingi í dag hvort haldnir væru einkafundir stjórnarliða í viðskiptanefnd þingsins. Tilefnið var ummæli varaformanns nefndarinnar í útvarpsviðtali í morgun um að mikið væri að gera í nefndinni.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagðist hafa hlustað á morgunþátt Bylgjunnar í morgun, þar sem Magnús Orri Schram, varaformaður viðskiptanefndar, hefði sagt að mikið annríki væri í nefndinni.
Þetta sagði Eygló einkennilegt í ljósi þess að enginn fundur hefði verið haldinn í nefndinni í síðustu viku. Til hefði staðið að halda fund en hann féll niður. Spurði Eygló hvort það væru ný vinnubrögð að halda fundi í nefndinni án þess að stjórnarandstaðan vissi af því.
Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður viðskiptanefndar, sagði að vera mætti að hann hefði ekki verið nákvæmur í orðum sínum í beinni útsendingu í morgun. Hann sagðist hins vegar hafa verið á fullu við að lesa sér til um þau mál, sem ættu eftir að koma til kasta nefndarinnar í sumar.