Greinileg aukning hefur verið í aðsókn að pungaprófinu svokallaða undanfarið en það gefur réttindi til að stjórna minnstu fiskibátunum. „Við sjáum að nýir menn vilja nú ná sér í réttindi og margir hugsa sér gott til glóðarinnar þegar strandveiðar verða leyfðar,“ segir Kjartan Örn Kjartansson, kennari í Skipstjórnarskólanum.
„Margir þessara manna hafa verið lengi til sjós og þá oft sem hásetar. Nú sjá þeir möguleika opnast og vilja sigla sjálfir. Ég finn sérstaklega fyrir þessum aukna áhuga í fjarnáminu og hjá mér eru nemendur alls staðar að af landinu, margir frá Akureyri og Vopnafirði svo ég nefni einhverja staði,“ segir Kjartan Örn.