Róttækar og sársaukafullar aðgerðir

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði þegar hún flutti Alþingi skýrslu um stöðu efnahagsmála, að hún stæði á næstunni frammi fyrir erfiðustu ákvörðunum, sem hún hefði þurft að taka á öllum sínum pólitíska ferli til að ná niður halla á ríkissjóði. 

„Erfitt verður að ná fram verulegri lækkun stýrivaxta, sem er lykilatriði fyrir heimilin og fyrirtækin, nema einnig verði á sama tíma verði gripið til róttækra og sársaukafullra aðgerða í ríkisrekstrinum, með niðurskurði útgjalda og skattabreytingum. 170 milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs verður að eyða fram til ársins 2013. Náist áætlanir okkar um aukinn hagvöxt frá lokum næsta árs myndi sá hagvöxtur skila okkur nærri 70 milljörðum króna upp í þann halla.

Við þurfum því að ná niður halla fram til ársins 2013. Þar stendur valið nánast eingöngu á milli margra slæmra kosta. Það verður viðfangsefni sem mun taka á hjá öllum og felur án efa í sér erfiðustu ákvarðanir sem ég hef þurft að taka á öllum mínum pólitíska ferli," sagði Jóhanna m.a.

Hún sagði að engin undankomuleið væri í þessum efnum. „Búið er að koma okkur í þessa skelfilegu stöðu og ef við viljum bjarga efnahag Íslands og forðast gífurlegar byrðar í framtíðinni á börnin okkar og komandi kynslóðir. Við erum ekki að takast á við halla ríkissjóðs til þess að þóknast Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða erlendum lánadrottnum.  Við þurfum að takast á við hallann til þess að tryggja almannaþjónustu til framtíðar og til þess að leggja ekki óbærilegar byrðar á komandi kynslóðir. Þetta er áskorun sem enginn stjórnmálaflokkur getur skorast undan og ég heiti á stjórnarandstöðuna að vinna með okkur til að ná þessum markmiðum," sagði Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka