Viðræður við Breta um Icesave-skuldbindingar Íslendinga eru fyrirhugaðar 2.-4. júní að sögn Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Til stóð að halda fund 21. maí en af því varð ekki þar sem Bretar óskuðu eftir því að honum yrði frestað.
Jóhanna sagði, að settur hefði verið mikill kraftur í að fá niðurstöðu um það lán, sem Bretar ætla að veita Íslandi vegna Icesave. Stefnt væri að því að ná niðurstöðu á fundinum í júní en verulegu máli skipti, að lánskjörin verði Íslandi ekki ofviða.
Það væri ánægjulegt, að viðunandi niðurstaða virðist hafa náðst í viðræðum við Norðurlöndin um lánasamninga en sú niðurstaða yrði kynnt fljótlega.