Getur ekki átt við útlagðan kostnað

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.

„Hann getur ekki verið að vísa til þess fjár sem fer úr ríkissjóði til að endurfjármagna bankana og sparisjóðina og reyndar Seðlabankann líka,“ sagði Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi í dag, spurður um meiningu orða sænska bankasérfræðingsins Mats Josefsson þess efnis að endurreisn bankakerfisins muni kosta um 85% af vergri landsframleiðslu Íslands, eða um 1.250 milljarða króna.

En ef Josefsson væri að vísa til þess tjóns sem ríkissjóður yrði fyrir og ylli skuldasöfnun, svo sem Icesave-innlánsreikninganna og fleiri atriða, þá gæti hann vel komist upp í „um það bil þessa tölu,“ sagði Gylfi. „Þá er það ekkert nýtt því þá passar þessi tala nokkurn veginn við þær tölur sem settar hafa verið fram í þessu samhengi áður.“

Gylfi lét þessi ummæli falla í umræðum um frumvarp hans til laga um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, en Guðlaugur Þór Þórðarson lét færa honum dagblaðið Uppsala Tidningen í þingsal, svo hann gæti lesið ummæli Josefsson sjálfur á sænsku. Sagðist Gylfi fúslega viðurkenna að hann væri ekki einn hinna fjölmörgu Íslendinga sem læsu Uppsala Tidningen á hverjum degi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert