Fær bætur vegna mistaka á sjúkrahúsi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða karlmanni örorku- og miskabætur vegna stórfells gáleysis, sem starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja eru taldir hafa sýnt þegar maðurinn var þar til læknismeðferðar.  

Maðurinn fór úr axlarlið árið 2002 þegar hann datt úr sófa á heimili sínu um nótt. Hann var fluttur á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og ákvað vakthafandi heilsugæslulæknir í samráði við yfirlækni að leggja manninn inn og gefa honum verkjalyf og slakandi lyf þar til hann kæmist í röntgenmyndatöku.

Síðar um morguninn veitti lyflæknir því athygli að ekki var búið að skrifa beiðni um röntgenmyndatöku og gerði hann það. Að lokinni myndatöku var manninum gefið verkjalyf en að því búnu togaði læknirinn í handlegginn þar til hann virtist smella í liðinn. Ekki var hins vegar tekin röntgenmynd til að staðfesta að innsetning í liðinn hefði tekist.

Þegar útskrifa átti manninn um kl. 15 þennan sama dag sagðist  hann vera lítið betri og gat lítið hreyft höndina. Taldi yfirlæknir þá greinilegt að handleggurinn væri ekki í axlarlið og setti hann í liðinn að nýju. Daginn eftir kom í ljós að maðurinn hafði hlotið taugaáverka.

Samkvæmt örorkumati var varanlegur miski mannsins metinn 20%, en engin varanleg örorka. Þá var talið að hann ætti rétt á þjáningabótum og fór fram uppgjör á bótunum í september árið 2005.

Í október 2005 kvartaði maðurinn til landlæknis vegna ófullnægjandi meðferðar. Í álitsgerð Landlæknisembættisins  segir m.a. að betur hefði þurft að standa að meðferð mannsins vegna axlarliðhlaups. Eftir innlögn á sjúkrahús hefði þurft að kalla fyrr til röntgenmyndatöku og grípa til viðeigandi meðferðar þ.e. að setja öxlina í liðinn, og fylgja eftir með röntgenrannsókn í kjölfarið. Þótt þekkt sé að axlarliðhlaup geti valdið taugaskaða í um þriðjungi tilvika væri ekki hægt að útiloka að töf á réttri meðferð hafi aukið líkur á slíkum skaða.

Þá var það niðurstaða ráðgefandi sérfræðings landlæknisembættisins, að ekki hafi verið faglega rétt staðið að meðferð mannsins.

Héraðsdómur segir, að í niðurstöðu Landlæknisembættisins felist þungur áfellisdómur yfir þeirri meðferð sem maðurinn fékk. Auk tæplega 1,1 milljóna króna bóta vegna varanlegrar örorku taldi dómurinn einnig ástæðu til að dæma manninum sérstakar miskabætur, 300 þúsund krónur, þar sem starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja hafi með aðgerðarleysi sínu og ófaglegum vinnubrögðum sýnt af sér stórfellt gáleysi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert