Grænfriðungar vilja að Jóhanna vakni

Fimm umhverfissamtök mótmæltu hvalveiðum Íslendinga við íslenska sendiráðið í Lundúnum …
Fimm umhverfissamtök mótmæltu hvalveiðum Íslendinga við íslenska sendiráðið í Lundúnum í dag.

Grænfriðungar krefjast þess að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og ný ríkisstjórn Íslands vakni og grípi þegar til aðgerða til að stöðva hvalveiðar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Grænfriðungum í kjölfar frétta af því að hrefnuveiðimenn héldu til veiða fyrr í dag.

Fram kemur í yfirlýsingunni að stjórnvöld séu sem lömuð þrátt fyrir andstöðu umhverfisverndarsamtaka, íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja auk ríkisstjórna Bandaríkjanna, Þýskalands, Bretlands, Finnlands og Svíþjóðar.

„Ríkisstjórn Íslands hefur sofnað í hvalveiðimálinu,“ er haft eftir Söru Holden, sem heldur utan um hvalfriðunarmál hjá Grænfriðungum. „Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra eru að klúðra tækifæri sem þau hafa fengið til að bjarga orðspori Íslands hvað varðar umhverfismál og orðspori Íslands á alþjóðavísu, auk tækifærinu að geta gengið í Evrópusambandið.“

Fram kemur að hvalveiðar og aðild að ESB eigi ekki samleið. ESB muni að öllum líkindum biðja Íslendinga að láta af hvalveiðum. Það yrði eitt af skilyrðum sambandsins.

Fimm umhverfissamtök mótmæltu hvalveiðunum fyrir framan íslenska sendiráðið í London í dag. Þar á meðal Whale and Dolphin Conservation Society sem hefur einnig sent frá sér harðorða yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert