Greiðslur Gunnars skoðaðar í kjölinn

Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri í Kópavogi.
Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri í Kópavogi. mbl.is

Viðskipti Kópavogsbæjar við fyrirtækið Frjálsa miðlun, sem er í eigu dóttur Gunnars I. Birgissonar bæjarstjóra, eru nú til rannsóknar hjá löggiltum endurskoðendum bæjarins og í biðstöðu þar til úttekt þeirra liggur fyrir.

Gunnar er sakaður um að hafa staðið fyrir óeðlilega háum greiðslum, um 50 milljónum króna, til fyrirtækis dóttur sinnar vegna verkefna sem bærinn fól því á tímabilinu 2003-2008. Að sögn Gunnsteins Sigurðssonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, kom til umræðu í bæjarráði hvort réttara og eðlilegra væri að fela utanaðkomandi aðilum rannsókn málsins.

„Það sem farið er fram á er nokkurs konar innri endurskoðun og þá hafa sumir haldið því fram, og ég get alveg skilið það, að ekki sé endilega eðlilegt að fela það sömu endurskoðunarskrifstofunni og fer með endurskoðun hjá bænum.“

Fullkomin sátt hafi hins vegar náðst um þá niðurstöðu fyrir helgi að fela Ómari Stefánssyni, formanni bæjarráðs, að hafa umsjón með vinnu endurskoðendanna og taka ákvörðun um framhaldið. „Meginmálið var að við vildum vanda okkur og standa þannig að málum að það vekti enga tortryggni.“

Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs og fulltrúi Framsóknarflokksins, vildi ekki tjá sig um hvort hann teldi tryggt að málið hlyti hlutlausa afgreiðslu hjá endurskoðendum Kópavogsbæjar.

Framsóknarmenn í Kópavogi funduðu vegna greiðslnanna fyrir helgi og komu meirihlutaslit til tals en ákveðið var að bíða niðurstöðu rannsóknarinnar áður en ákvörðun yrði tekin um framhaldið. Búist er við að rannsóknin taki stuttan tíma þar sem einungis þetta eina fyrirtæki er til skoðunar.

Á sama tíma er einnig beðið niðurstöðu Ríkisendurskoðunar á greiðslum til sama fyrirækis frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, sem námu um 11 milljónum króna, á meðan Gunnar Birgisson sat þar í stjórn. Stjórn LÍN taldi eðlilegast að utanaðkomandi rannsökuðu málið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert