Íslendingar svartsýnir á horfur í efnahagsmálum

Íslendinga eru svartsýnir á horfur í efnahags- og atvinnumálum
Íslendinga eru svartsýnir á horfur í efnahags- og atvinnumálum Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Svartsýni íslenskra neytenda jókst aðeins frá síðasta mánuði. Væntingavísitala Gallup lækkaði um 9 stig á milli apríl og maí en vísitalan var birt í morgun. Svarsýnin náði hámarki í janúar á þessu ári þegar væntingavísitalan fór í 19,5 stig en heldur dró úr henni í aðdraganda kosninga og fór hún upp í 39,0 stig í apríl. Vísitalan mælist nú 29,9 stig en þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir á efnahags- og atvinnumálin.

Svartsýnin á núverandi efnahags- og atvinnuástand hefur verið stöðug og mikil undanfarna mánuði, að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Sá hluti væntingavísitölunnar sem mælir viðhorf neytanda til núsins fór í 5,2 stig í nóvember á síðasta ári og er nú svipuð eða 5,1 stig. Sveiflan hefur verið í væntingum neytenda til ástandsins eftir 6 mánuði en sá hluti vísitölunnar fór lægst í 30,8 stig í janúar og var síðan kominn upp í 62,1 stig í apríl en mælist nú 46,5 stig.

„Talsverð fylgni er að milli einkaneyslu og væntingavísitölu Gallup. Hún segir því nokkuð vel til um neysluhegðun heimilanna og rímar lágt gildi hennar nú vel við aðrar vísbendingar um að heimilin séu að draga hratt úr neyslu sinni. Má þar nefna innflutningstölur, tölur um dagvöruveltu og kortaveltu.

Einkaneyslan dróst saman um 23,8% á föstu verði á milli fjórða ársfjórðungs 2007 og 2008 og hefur samdrátturinn haldið áfram á þessu ári enda hefur kaupáttur rýrnað frekar og fjárhagsleg staða heimilanna frekar versnað," að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert