Íslendingur meðhöfundur að grein í Science

mbl.is/Jim Smart

Unnur Skúladóttir, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni, er í hópi 11 höfunda að grein sem birtist í hinu virta tímariti Science 8. maí s.l. en þar velta vísindamennirnir fyrir sér möguleikum þess að nota rækju sem mælikvarða á umhverfisbreytingar. Fyrsti höfundur greinarinnar er Kanadamaðurinn Peter Koeller, að því er segir á vef Hafró.

„Afli kaldsjárvarrækjutegundarinnar (Pandalus borealis, stóra kampalampa) sem veidd er á Íslandsmiðum og víðar í Norður Atlantshafi er um 70% af um 500 þúsund tonna heildararafla af öllum rækjutegundum sem veiddar eru í heiminum. Hvað fæðuvistfræðilega stöðu varðar má segja að kaldsjávarrækjan sé í miðjum fæðupírumídanum þar sem hún étur meðal annars plöntu- og dýrasvif en er sjálf mikilvæg fæða fyrir ýmsa nytjafiska eins og t.d. þorsks. Vegna þessarar stöðu má ef til vill nota áhrif hugsanlegra hitabreytinga á rækjuna sem vísbendingu um það sem gerast kann hjá öðrum tegundum samfara breytingum á sjávarhita. Þegar þorskstofnarnir við Kanada hrundu í byrjun tíunda áratugarins uxu rækjustofnarnir mjög í kjölfarið. Aukningin var að hluta til talin stafa af mun minna áti þorsks. Vísindamenn hafa einnig tekið eftir því að almennt er meira um rækju þegar sjórinn er kaldur sem kann að stafa af því að þá fækki afræningjum,“ segir á vef Hafró.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka